Feitt hugrekki

Ég skrifaði þennan bakþanka fyrir Fréttablaðið á bóksafninu í New York þegar við vorum þar í fjölskylduferð fyrir þremur árum. Við heimsóttum líka kæra vini í Washington og Vífill flaug hringinn í kringum hnöttinn til að vera með okkur; hann kom úr ferðalagi til Víetnam í gegnum Kóreu til Bandaríkjanna og flaug svo til Íslands og þaðan heim til Englands. Þetta var frábært ferðalag.

Það tók mig enga stund að skrifa þetta, enda beint frá hjartanu og sársaukafullum stað. Ég hef ekki staðið mig eins vel og ég vildi í að vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín hvað líkamsímynd varðar, enda markeruð af fortíðinni sem hefur ennþá áhrif á mig.

Ég þorði ekki að láta birta bakþankann. Svitnaði í höndunum við að skrifa hann og þótti óhugsandi að viðurkenna fyrir alþjóð hvílík krumpa væri inní mér. Skrifaði þess vegna annan bakþanka í snarhasti og fór svo að hitta bestu mín í Central Park á leikvelli sem stóð svo ekki undir væntingum, en það var samt gaman.

Í dag var ég að fletta Twitter til þess að horfast ekki í augu við erfiðan kafla sem ég er að berjast við að skrifa og sá umræðu um fitufordóma. Kannski var þetta stundarbrjálæði, en mér fannst ég allt í einu svo hugrökk að ég ákvað að birta bakþankann, með innsláttarvillum og öllu. Geri það hérna líka. Feitt hugrökk týpa.

Fita. Bakþanki sem aldrei birtist.

Topp 5 ráð fyrir karla sem eru á móti kynferðisofbeldi og vilja sýna það í verki

Nr. 1 Ekki beita kynferðisofbeldi

Virðist einfalt, en hefur greinilega ekki gengið nógu vel. Hérna eru leiðbeiningar frá landlækni og hérna eru leiðbeiningar með einföldum myndum. Ef þetta er ekki nóg væri hægt að henda í átak, til dæmis að fyrirmynd meistaramánaðar. Nauðungarlaus lífstíll væri flott markmið.  

Ég hef svosem skrifað um það áður, en þeir sem eru ekki á móti kynferðisofbeldi af hugsjónaástæðum ættu að minnsta kosti að vera það af hagkvæmnisástæðum, enda hleypur kostnaður af ofbeldi gegn konum á hundruðum milljóna samkvæmt erlendum úttektum.

Nr. 2 Ekki segja ekki allir karlar

Karlar eru í meirihluta þeirra sem beita ofbeldi, bæði aðra karla og konur. Þeir eru líka í miklum meirihluta þeirra sem beita kynferðislegu ofbeldi. Þetta þarf ekki að fjölyrða um. Það er verið að tala um kerfi, ekki einstaklinga. Karlar sem beita ekki kynferðisofbeldi þurfa ekki að taka þetta persónulega. Þeir geta frekar reynt að sýna samkennd og setja sig í spor kvenna til þess að skilja þennan veruleika. Gott lesefni er til dæmis The Right Amount of Panic, sem er hægt að lesa aðeins um á íslensku hér.

Nr. 3 Vera fyrirmynd

Karlar eru oft fyrirmyndir stráka. Þetta birtist með margskonar hætti. Þeir eru til dæmis í uppeldishlutverki gagnvart strákum, þjálfa þá í íþróttum, kenna þeim í skóla eða eru yfirmenn þeirra á vinnustað. Tækifærin til þess að móta gildi og viðhorf karla framtíðarinnar eru óþrjótandi og karlar geta notað þau til þess að breyta, jafnvel eyða, menningu sem viðheldur umhverfi sem kynferðisofbeldi þrífst í. Hérna eru nokkur ráð fyrir feður.

Nr. 4 Fara á námskeiðið Bandamenn hjá Stígamótum

Farðu með vinum, vinnufélögum, körlum í fjölskyldunni eða bara einn. Kannski niðurgreiðir stéttarfélagið jafnvel námskeiðisgjaldið.

Nr. 5 Halda karlakvöld

Þá er ég auðvitað ekki að meina karlakvöld eins og íslensk íþróttafélög hafa haldið í fjáröflunarskyni í áratugi þar sem kvennaliðið gengur um beina í stuttum pilsum og allir sem fram koma eru kallar því að það eru bara engir frambærilegir kvenkyns listamenn. Ekki heldur svona karlakvöld þar sem vinirnir eða vinnufélagarnir gera sér glaðan dag og það er ráðin strippari til að skemmta. Ég er að meina karlakvöld að fyrirmynd sænsku samtakanna Make Equal, sem kallast killmiddag á sænsku og gengur útá að karlar hittist og tali við vini sína, vinnufélaga eða karlana úr íþróttafélaginu til þess að tala um kynferðislegt ofbeldi. Það er hægt að nálgast leiðbeiningar á ensku hér.

Facebook og fjölmiðlar

Ég fletti Time um daginn. Þar var fjallað um 100 framtíðarleiðtoga. Elisabeth Warren skrifar þar um Lina Kahn og það hvernig hún býður stóru tæknifyrirtækjunum birginn í gegnum störf sín og fræðimennsku. Í Silfrinu um daginn talaði ég um rannsóknir Khan sem er á flekamótum samkeppnisréttar og internetlögfræði og sagði að ef það ættu að verða verulegar breytingar á umgjörð stóru félagsmiðlanna, eins og Kahn hefur talað fyrir, þyrfti að koma til mikið pólítískt hugrekki í Bandríkjunum. Eftir þáttinn sagði ég við Egil og Gunnlaug, sem var með mér í settinu, að ég hefði litla trú á að Biden og Harris myndu sýna slíkt hugrekki. Ég hef sjaldan verið jafn spennt yfir því að hafa rangt fyrir mér, en í gær tilkynnti Hvíta húsið um tilnefningu Kahn í stjórn Federal Trade Commission (FTC). Í því felst ekki aðeins pólítískt hugrekki og framsýni, heldur stefnuyfirlýsing um að framundan séu breytingar á framkvæmd og jafnvel umgjörð samkeppnisumhverfis stóru tæknifyrirtækjanna.

Finnski forsætisráðherrann var á forsíðuTime.

Til viðbótar hefur Tim Wu verið ráðinn sérstakur ráðgjafi forsetans í samkeppnis- og tæknimálum. Wu og Kahn eiga það sameiginlegt að vera akademískir starfsmenn í Columbia háskólanum, en þau hafa líka bæði unnið í lengri eða skemmri tíma innan stjórnkerfisins. Kahn var þingnefndarritari og kom þannig að samtali þingsins við stóru tæknifyrirtækin og Wu er einn höfundanna að sáttinni sem Facebook gerði við FTC árið 2012 og fyrirtækið var sektað fyrir að brjóta árið 2019. Í stuttu máli má segja að þau hafi talað fyrir mikilvægi þess að „brjóta upp“ stóru tæknifyrirtækin þó þau hafi talað fyrir aðeins ólíkum aðferðum til þess að ná því markmiði. Þau eru bæði áhrifafólk í stefnumótun, en veruleg líkindi eru með tillögum Elisabeth Warren um samkeppnisaðgerðir gegn stóru tæknifyrirtækjunum sem hún setti fram í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar og tillögum Wu. Grein Kahn um Amazon sem hún skrifaði á meðan hún var enn í laganámi hafði meiriháttar áhrif í akademískri umræðu þegar hún kom út 2017 og hefur síðan öðlast sess sem grundvallarefni í stefnumótandi umræðu um samkeppisstöðu stóru tæknifyrirtækjanna. Með svona áhöfn verður að teljast líklegt að Biden stjórnin fari af krafti í að beita ákvæðum gildandi samkeppnislaga til þess að hemja yfirburðastöðu fárra risavaxinna fyrirtækja, en að í framhaldinu verði ráðist í lagabreytingar.  

Ekki bara í Bandaríkjunum

Staða félagsmiðlanna og stóru tæknifyrirtækjanna er þó ekki sérbandarískt mál. Um áhrif félagsmiðla á fjölmiðla og fjölmiðlun um alla heim þarf ekki að fjölyrða. Hliðvarðahlutverk fjölmiðla hefur raskast og auglýsingatekjur í auknum mæli færst til alþjóðlegu tækifyrirtækjanna sem hefur haft neikvæð áhrif á fjármögnun frjálsra fjölmiðla. Í ljósi hins gríðarmikilvæga hlutverks sem fjölmiðlar gegna í lýðræðissamfélögum hafa stjórnvöld víða um heim leitað lausna á þessari stöðu. Í Silfrinu ræddum við um þá leið sem áströlsk stjórnvöld hafa farið til þess að tryggja fjölmiðlum endurgjald fyrir efnið sem þeir vinna og er dreift í gegnum félagsmiðla. Þann 25. febrúar sl. tóku lög þess efnis gildi í Ástralíu, en þau taka aðeins til Google og Facebook. Fram að setningu laganna hafði átt sér stað mikið samráð við hagsmunaaðila. Facebook lýsti sig tilbúið til þess að greiða fyrir fréttaefni, en taldi útfærslu laganna óásættalega. Það taldi lögin opna á að fyrirtækinu yrði gert að greiða fjölmiðli sem dreifði tilbúningi, þau stuðluðu að upplýsingaóreiðu og gengu í berhögg við skilmála Facebook. Í mótmælaskyni ákvað Facebook að loka á allt ástralskt fréttaefni á miðlinum. Þetta vakti hörð viðbrögð um allan heim, en er þó ekki ný aðferð.  

Svipuð viðbrögð komu frá Google í tengslum við „google skattinn“ sem spænsk stjórnvöld ætluðu að leggja á leitarvélar sem vísuðu á efni úr spænskum fjölmiðlum árið 2014. Markmið gjaldtökunnar var það sama og ástralskra stjórnvalda með nýju lögunum; að jafna stöðuna á milli innlendra fjölmiðla og alþjóðlegra tæknifyrirtækja í ljósi þeirra áhrifa sem tækniframþróun hefur haft á fjölmiðlun og fjármögnun landsbundinna fjölmiðla. Fallið var frá þessum áformum eftir að Google lokaði á alla miðlun spænskra fjölmiðla í gegnum leitarvél þeirra. Rannsóknir sýna að áhrif lokunar Google voru þau að fréttanotkun minnkaði um 20% og umferð á fjölmiðlasíðunum um 10%. Þetta kom sérstaklega niður á minni fjölmiðlum og hefðu áform spænskra stjórnvalda gengið eftir hefðu þau að öllum líkindum haft neikvæð áhrif á fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði á Spáni til lengri tíma.

Læra af reynslunni?

Það er full ástæða til þess að hafa reynslu Spánverja í huga í tengslum við gildistöku nýju laganna í Ástralíu. Lögin eru kölluð News Barganing Code og kveða á um að náist samningar ekki á milli aðila hafi ástralska fjölmiðlaeftirlitið heimild til þess að ákveða gjöld og greiðslufyrirkomulag á milli aðilanna. Þegar horft til þess hversu vel þessar tillögur eru sniðnar að hagsmunum eins fjölmiðlafyrirtækis sem hefur algera yfirburðastöðu á áströlskum fjölmiðlamarkaði kviknar enn á viðvörunarbjöllum. Afleiðingar reglusetningar geta orðið aðrar en stefnt er að, sérstaklega ef einblínt er um of á skammtímahagsmuni frekar en langtíma. Lagasetningin í Ástralíu virðist falla í þessa gryfju. Lögunum er ætlað að styrkja tekjugrundvöll landsbundinna fjölmiðla, en líkur eru hins vegar á því að þau muni vinna gegn fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði til lengri tíma. Raunar er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að breytingarnar verði til frekari samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði og þrengi aðgang nýrra miðla að markaðinum. Ástæður þessa eru ekki síst þær að forsendur lagasetningarinnar miða við að Facebook og Google haldi áfram að vera í yfirburðastöðu á markaðinum og að því verði ekki breytt. Facebook og Google stefna bæði að því að framsetning frétta eigi sér í auknum mæli stað í gegnum fréttaveitur á þeirra vegum, á borð við Facebook News. Þannig verða hagsmunir þeirra miðla sem stóla á dreifingu í gegnum samfélagsmiðla samofnir hagsmunum félagsmiðlana. Fyrirkomulagið festir þannig frekar í sessi þá félagsmiðla sem lagasetningin tekur til; Facebook og Google. Til viðbótar við þetta hafa fyrirtækin með margvíslegum hætti stutt við fjölmiðla sem nota þjónustu þeirra. Á síðustu árum hefur fjölmiðlaarmur Google, Google News Initiative (GNI), veitt verulegum fjármunum í að styðja við litla og meðalstóra fjölmiðla um allan heim og komið að fjármögnun blaðamannanámskeiða og –náms. Í tengslum við þá upplýsingaóreiðu sem vart var við í tengslum við Covid-19 tilkynnti GNI um 6.5 milljón dollara fjárveitingu sem er ætlað að vinna gegn upplýsingaóreiðu og villandi upplýsingum um Covid-19. Fjármagnið á að nýtast til þess að styðja við starfsemi frjálsra félagasamtaka og annarra sem staðreyna efni á netinu, auka aðgang að gögnum, staðreyndum upplýsingum og vísindafólki og styðja við heilbrigðisyfirvöld. Þá bauð Facebook nýlega styrki til norrænna fjölmiðla.

Evrópa til bjargar?

Ríki um allan heim leita leiða til þess að styrkja fjórðu stoð lýðræðisins – fjölmiðla. Á vettvangi samevrópska regluverksins eiga áhrif höfundaréttartilskipunarinnar eftir að koma fram að fullu, en ef marka mál framgang mála í Frakklandi virðist líklegt að hagsmunir landsbundinna fjölmiðla og alþjóðlegra tæknifyrirtækja eigi eftir að vefjast frekar saman. Framundan eru svo verulegar breytingar á umgjörð stafrænnar miðlunar efnis, þar á meðal fréttaefnis, í Evrópu með Digital Services Act. Þessi þróun mun óhjákvæmilega hafa veruleg áhrif á starfsemi stóru alþjóðlegu tæknifyrirtækjanna og er til þess fallin að styrkja samkeppni, neytendum til hagsbóta.

Á síðustu árum hefur framsækin lagasetning Evrópusambandsins um stafræn málefni haft áhrif á lagasetningu vestanhafs. Persónuverndartilskipunin er sennilega besta dæmið um það. Það verður því spennandi að sjá hvort Biden muni ráðast í sambærilegar lagabreytingar, eftir uppskrift Kahn og Wu, eða hvort að stefnubreytingin muni fyrst og fremst birtast í hvassari beitingu gildandi samkeppnisréttarlegra úrræða eins og er einboðið að geti gerst undir forystu Linu Kahn hjá FTC.

Úrskurðir kærunefndar jafnréttismála frá gildistöku jafnréttislaga nr. 10/2008 til október 2018.

Úrskurðir kærunefndar jafnréttismála frá gildistöku jafnréttislaga nr. 10/2008 til október 2018.
18. mars 2008 – 13 október 2018. Heildarfjöldi mála: 76.
VarðarFjöldi málaAthugasemdir
Stöðuveiting, skipan í embætti, hæfismat, ráðning í starf45
Uppsögn, starfslok5 
Kynferðisleg áreitni1Málsatvik í tíð eldri laga. Vísað frá vegna þess að kæran barst eftir að kærufrestur rann út. Ekki efnisleg skoðun.
Samræming fjölskyldu og atvinnulífs1Kona fór fram á lækkað starfshlutfall vegna þess að hún kom barninu ekki til dagmömmu eftir fæðingarorlof. Brot á jafnréttislögum að fallast ekki á þetta.
Mismunun7Öllum vísað frá þar se ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni kæranda.
Félagsleg réttindi1Lagaskil varðandi endurhæfingarlífeyri og fæðingarorlof
Ósk um túlkun laganna1Hvort auglýsing þar sem auglýst eftir konu til starfa sem veiðivörður væri brot á lögum. Kærunefndin ekki álitsgjafi. Vísað frá.
Skipan í þingnefnd1 
Sértækar aðgerðir1Húsmæðraorlof á grundvelli laga lögmæt sértæk aðgerð í skilningi 2 gr
Launamunur, launamismunun13 

Í tengslum við endurskoðun jafnréttislaga vann ég greinargerð um fyrsta kafla gildandi laga með hliðsjón af þeim tækni- og samfélagsbreytingum sem hafa átt sér stað á þessum röska áratug frá gildistöku laganna. Þessa töflu setti ég upphaflega upp í tengslum við jafnrétti á vinnumarkaði, en hún reyndist ekki síður fróðleg í samhengi við #metoo og úrræði laganna til þess að taka á kynferðislegri áreitni á vinnustað. Ætla mér nú að skrifa grein uppúr þeim kafla einhvertíma þegar ég hef tíma.

Ruth, Roe og Russo

Það var í gegnum höfundarverk Danielle Citron og Mary Ann Franks, lögfræðinga sem skrifa um friðhelgi einstaklinga í femínísku ljósi sem ég fann grein Ruth Bader Ginsburg “Some thoughts on autonomy and equality in relation to Roe v. Wade”. Ég hafði svosem verið aðdáandi Ruth um árabil, en það var ekki fyrr en ég las þessa grein að aðdáun mín náði slíkum hæðum að ég stofnaði aðdáendaklúbb um Ruth á Íslandi.

Á síðsta fundi aðdáendaklúbbsins talaði ég um greinina og þau áhrif sem hún hefur haft á mig og mína vinnu, en einnig um afstöðu Ruth sem birtist í greinni. Í greininni sem kom út árið 1984, tæplega áratug áður en hún tók sjálf sæti í réttinum, gagnrýnir Ruth niðurstöðu hæstaréttar Bandaríkjanna í máli Roe gegn Wade. Niðurstaðan fól í sér að lögbundið bann við þungunarrofi var talið brjóta gegn reglu 14 viðauka stjórnarskrárinnar um jafna meðferð. Þó að Ruth hafi verið talsmaður þess að konur nytu jafns réttar á við karla, olli greinin nokkru fjaðrafoki og margar baráttukonur fyrir jafnrétti töldu Ruth með gagnrýninni bregða fæti fyrir kynsystur sínar; hana sem áður hafði orðað málatilbúnað sinn fyrir Hæstarétti þannig að hún bæði ekki um neinn forgang fyrir konur, aðeins það að karlar lyftu fætinum af hálsinum á þeim. Sjónarmið Ruth í greininni var meðal þess sem olli því að framákonur í bandarísku femínistahreyfingunni lögðust gegn bæði tilnefningu hennar og skipan í hæstarétt Bandaríkjanna á sínum tíma. Það er þó sennilega vandfundinn femínisti í dag sem myndi taka undir þau sjónarmið að skipan Ruth í hæstarétt Bandaríkjanna hafi verið skref aftur á bak í baráttunni fyrir jöfnum rétti kynjanna í Bandaríkjunum. Hún hefur þvert á móti orðið hálfgerð táknmynd prógressífs femínisma í Bandaríkjunum og á síðustu árum undir gælunafninu Notorious RBG.

Ruth gagnrýndi í greininni ekki hina efnislegu niðurstöðu dómsins, heldur taldi hún formið gallað. Hún er sammála því að konur eigi að ráða því sjálfar hvort þær klári meðgöngu eða rjúfi þungun. Aðferðafræði og röksemdir hæstaréttar í málinu taldi hún hins vegar ófullnægjandi og greindi þær áhyggjur að meginstefnu í tvennt. Annars vegar taldi hún niðurstöðu dómstólsins um að öll lagasetning sem takmarkaði heimild til þungunarrofs gengi gegn stjórnarskránni væri of víðtæk ályktun og að réttara hefði verið að niðurstaðan hefði falið í sér að löggjöfin í Texas ríki sem var til umfjöllunar í málinu samrýmdist ekki ákvæðum stjórnarskrárinnar. Þannig hefðu ríki áfram haft svigrúm til þess að tryggja aðgang að öruggu þungunarrofi, til að mynda með lagasetningu, í stað þeirrar nálgunar sem varð fyrir valinu. Hins vegar taldi hún niðurstöðu dómstólsins ekki stíga nægilega skýr skref til þess að ramma álitaefnið í málinu sem rétt kvenna til þess að ráða yfir líkama sínum sem hún taldi að ætti að vera grundvallarforsenda við úrlausn málsins.

Niðurstöðuna taldi hún þannig aðeins sigur jafnréttissinna til skemmri tíma, þar sem að inngrip hæstaréttar myndi skapa samfélagslegt ósætti um þungunarrof í stað þeirrar vegferðar sem var hafin í mörgum ríkjum Bandaríkjanna þegar dómurinn gekk til þess að tryggja með lögum öruggt aðgengi kvenna að þungunarrofi. Hún taldi að vegna hinnar gölluðu aðferðarfræði í málinu myndi niðurstaðan í Roe gegn Wade ekki einungis valda því að áfram yrði sótt að rétti kvenna til þess að ráða yfir líkama sínum til lengri tíma, heldur gæfi dómurinn andstæðingum þessara réttinda kvenna skotfæri og skotmark til þess að beina óánægju sinni að. Auðvitað, en því miður, hafði okkar kona 100% rétt fyrir sér.

Þó að þungunarrof sé heimilt að alríkislögum, er aðgengi að þeim mismikið eftir því í hvaða ríki Bandaríkjanna viðkomandi er stödd. Þannig eru í gildi lögbundnar takmarkanir í mörgum ríkjum og árið 2018 voru lögð fram samtals rúmlega 300 frumvörp í 47 ríkjum Bandaríkjanna sem miða að því að takmarka aðgengi kvenna að þungunarofi. Birtingarmyndir þessa koma þó ekki aðeins fram á löggjafarþingum ríkjanna, eins og sást af amicus brief sem níu þingmenn rebúblikana í Pensylvaníu lögðu fram í máli June Medical Services LLC gegn Russo sem hæstiréttur hefur til meðferðar og varðar lögbundnar takmarkanir að þungunarrofi í Loisiana fylki. Þá er árlega er haldinn útifundur þeirra sem telja að þungunarrof eigi ekki að vera heimilt þar sem þess er krafist að niðurstöðunni í Roe gegn Wade verði snúið við. Fundurinn er haldinn í Washington þann 23. janúar, dagsetningunni sem dómur gekk í málinu árið 1973, undir yfirskriftinni “March for Life”. Fundurinn hefur orðið æ pólítískari með árunum og stuðningur eða andstaða stjórnmálamanna við fundinn oft sett fram sem einhverskonar mælistika á afstöðu þeirra til jafnréttis kynjanna. Sitjandi Bandaríkjaforseti, er þó eini forsetinn sem hefur ávarpað samkomuna á staðnum.

Umræðan um gildi fordæmisins sem rétturinn setti með niðurstöðu sinni í Roe gegn Wade hefur ekki aðeins haft pólaserandi áhrif á stjórnmálaumræðu og sérstaklega í samhengi við réttindi kvenna, heldur hefur afstaða tilnefndra dómara til dómsins orðið að meiriháttar mælikvarða á hugmyndafræðilega afstöðu dómara og saksóknara í Bandaríkjunum. Fyrirkomulag við skipan dómara í áfrýjunardómstóla og hæstarétti er ekki alltaf gallalaust eins og við íslendingar þekkjum. Vegna þess hvernig fyrirkomulagið er við skipun dómara í Hæstarétt Bandaríkjanna hefur skipan dómara við réttinn orðið að kosningamáli. Til að mynda lýsti sitjandi forseti því yfir fyrir kosningarnar 2016 að hann myndi skipa dómara við réttinn sem myndu snúa við niðurstöðunni í Roe gegn Wade. Síðan hefur hann skipað tvo dómara við réttinn sem raða sér á íhaldssamari hlið hugmyndafræðiássins. Vegna þess usla sem skipanirnar ullu í bandarísku samfélagi valdi forseti réttarins að færa mörg hitamál á dagskrá dómsins aftar en áætlað var, sem veldur því að á þessu ári munu ganga niðurstöður í málum sem varða réttindi hinsegin fólks á vinnumarkaði, réttarstöðu innflytjenda og fyrrgreint mál June Medical Services LLC gegn Russo sem varðar lög sem takmarka aðgang að þungunarrofi. Málflutningur í málinu hefur þegar átt sér stað. Spurningarnar sem Ruth spurði málflytjendur þar báru vitni þess að það hægir ekki á okkar konu þrátt fyrir háan aldur og ýmsa heilsukvilla. Niðurstaðan mun þó reyna á yfirlýsingar forsetans sem er nú aftur í kosningabaráttu um Roe og nýju dómarana tvo.

Þungunarrof og refsingar

Hlustaði á Law in Action í gær, en í þættinum er fjallað um nýlegar lagabreytingar sem aflétti banni þungunarrofs á Norður-Írlandi. Lagasetningin sjálf hefur skapað nokkrar umræður sem ég ætla ekki að rekja hér, en ástæða hennar er niðurstaða Hæstaréttar Norður-Írlands um að löggjöf um bann við þungunarrofi á Norður-Írlandi hafi brotið í bága við réttindi konu sem þurfti vegna þeirra að fara til Englands til þess að framkvæmd þungunarrof. Dómurinn hefur þó ekki vald til þess að fjalla um gildi viðkomandi laga almennt, eða fella þau úr gildi, til þess þarf að koma lagasetning. Vegna sérstakra aðstæðna voru lögin sett í Englandi, en hafa tekið gildi á Norður-Írlandi.

Það var allskonar áhugavert til umfjöllunar í þættinum að vanda, en ég hjó sérstaklega eftir þessari umfjöllun um þungunarrofið vegna þess að ég er nýbúin að rýna íslensku hegningarlögin í tengslum við verkefni sem ég er að vinna að fyrir forsætisráðuneytið. Þá rak ég augun í 216. gr. hegningaralaganna:

 Kvenmaður, sem deyðir fóstur sitt, skal sæta … 1) fangelsi allt að 2 árum. Ef sérstaklega ríkar málsbætur eru fyrir hendi, má ákveða, að refsing falli niður. Mál skal ekki höfða, ef 2 ár eru liðin frá því að brot var framið. Ónothæf tilraun er refsilaus.
 Hver, sem með samþykki móður deyðir fóstur hennar eða ljær henni lið sitt til fóstureyðingar, skal sæta fangelsi allt að 4 árum. Sé um mikla sök að ræða, einkum ef verknaðurinn er framinn í ávinningsskyni eða hann hefur haft í för með sér dauða eða stórfellt heilsutjón móður, skal beita allt að 8 ára fangelsi. Hafi verkið verið framið án samþykkis móður, skal refsing vera fangelsi ekki skemur en 2 ár og allt að 12 árum.

Vegna þess að lagasafnið á netinu er ekki uppfært jafnóðum hélt ég að þarna væri á ferðinni draugur sem hefði verið afnuminn með nýlegri, og nokkuð umdeildri, lagasetningu um þungunarrof á síðasta þingi.  En þegar ég fletti upp frumvarpinu kom annað í ljós. Í ákvæði laganna um refsingar er vísað til ákvæða hegningarlaga og greinargerð með ákvæðinu sérstaklega til 2. mgr. 216. gr. sem fjallar um ábyrgð þeirra sem aðstoða konur við þungunarrof. Þannig verður konu sem rýfur þungun eftir 22. viku meðgöngu gerð refsing fyrir háttsemina, nema sérstakar aðstæður komi til. Ekkert er fjallað um þessa 1. mgr. 216. gr. hegningarlaganna í frumvarpinu. Ég fylgdist reyndar ekki mjög vel með meðferð málsins svo hugsanlega hefur ákvæðið komið til umfjöllunar við þinglega meðferð laganna, en það er ekki að finna í greinargerðinni. Ákvæðið ber rík merki þess að vera barn síns tíma. Ég skil ekkert í að það hafi ekki verið tekið til endurskoðunar í tengslum við setningu nýju laganna.

Hatur a kommentakerfum

Rúmlega sextugur karlmaður í Þrændalögum var nýlega dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisvistar og sektargreiðslu fyrir haturstal, þegar hann skrifaði athugasemd við færslu á Facebook vegg norsku stjórnmálakonunnar Hadia Tajik sem má þýða sem: “Komið skíthælnum fyrir undir fallöxinni – ég toga gjarna sjálfur í spottann svo að öxin falli” og átti þar við Tajik. Hann var einnig dæmdur athugasemdina “drepstu í helvíti skítakelling” auk annarra. Dómstóllinn taldi ljóst að skrif mannsins ættu rætur í því að Tajik er múslimi og væri því haturstal í skilningi 185. gr. norsku hegningarlaganna. 

Ákvæðið orðast svo í íslenski þýðingu nefndar um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem vann frumvarp sem nýlega var kynnt til samráðs um þrengingu haturstals ákvæðis íslenskra hegningarlaga, nr. 233.a: 

“varðar það sektum eða fangelsi allt að þremur árum að setja, af ásetningi eða gáleysi, opinberlega fram hatursfulla tjáningu eða tjáningu sem hvetur til mismununar. Sá sem af ásetningi eða gáleysi setur fram slíka tjáningu í nærveru annars skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. […] með hatursfullri tjáningu eða tjáningu sem hvet[ur] til mismunar [er] átt við það að ógna einhverjum eða smána, eða að stuðla að hatri, ofsóknum eða fyrirlitningu einhvers á grundvelli litarháttar, þjóðernis, þjóðlegs uppruna, trúar, lífsskoðana, kynhneigðar eða fötlunar hans.”

Ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga, sem nefndin leggur til breytingar á orðast hins vegar svo:

“Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.”

Í frumvarpinu kemur fram sú afstaða nefndarinnar að breytingar sem gerðar voru á ákvæðinu árið 2014, meðal annars til þess að fullgilda viðbótarbókun við tölvubrotasamning Evrópuráðsins, hafi falið í sér þrengingu á tjáningarfrelsinu sem rétt sé að leiðrétta eins og gert er með breytingartillögunni. Nánar tiltekið á að breyta orðalagi ákvæðisins  þannig að ákveðnu alvarleikastigi tjáningar sé náð áður en hægt sé að virkja ákvæðið í framkvæmd. Í þessu augamiði leggur nefndin til að setningunni „enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun” sé skeytt aftan við ákvæðið. Þetta er eins og kom fram í kynningu frumvarpsins í haust til þess fallið  að lögreglan verði laus við “að rannsaka og ákæra fyrir eitthvað einstakt rant á kommentakerfum sem er ekki hluti af eiginlegum hatursáróðri”.

Á fundi á vegum Orator og ELSA Ísland um frumvarpið komu fram gagnstæð sjónarmið um ætlaða gagnsemi lagabreytingarinnar.  Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um frumvarpið er því velt upp hvort að breytingarnar gætu falið í sér verulegar takmarkanir á framkvæmd ákvæðisins, auk þess sem alla umfjöllun vanti um skaðsemi haturstals.

Það sem einna helst vekur athygli mína er að í fjölmörgum ríkjum Evrópu er til skoðunar hvernig bæta þurfi lagalega umgjörð haturs og hótana í garð kvenna sem taka sér pláss í opinberri umræðu. Þetta er takturinn í umræðunni í Bretlandi og málið sem varðar norsku stjórnmálakonuna er áminning um niðurstöður rannsókna og úttekta frá Danmörku, Svíðþjóð og Bretlandi sem sýna að konur í stjórnmálum verða fyrir áreiti sem á rætur í kyni þeirri; nokkuð sem karlar standa ekki frammi fyrir með sama hætti. Danska rannsóknin gefur til kynna að það sem vekji hörðust viðbrögð séu konur sem tjá sig um jafnréttismál, trúmál og innflytjendamál. Norska málið passar vel inní þá mynd.

Frumvarpið um hatursákvæðið ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir haustið. Það held ég að sé skynsamleg niðurstaða.

Lög um landslénið .is

Það er alveg frábært að fylgjast með því hversu mikill kraftur er í vinnu stjórnvalda á sviði netöryggismála. Lagaumgjörð og stefnumótun hefur verið tekin föstum tökum á síðustu árum og verið styrkt verulega. Alþingi hefur samþykkt metnaðarfulla langtímastefnu í fjarskiptamálum til 2033 og framkvæmdaáætlun til 5 ára, en í áætluninni er tilgreint að sett verði lög um landslénið .is á tímabilinu. Það þykja mér spennandi fréttir. Svo ég rauk í Hlöðuna til þess að finna meistararitgerðina mína sem fjallar einmitt um lagasetningu um landslénið .is og komst að því að hún er ekki þar. Reyndar komst ég að því að ég átti bara eitt einasta eintak af ritgerðinni. Það er prófseintakið mitt; innbundið á pappír og útkrotað með leiðréttingum og athugasemdum. Það var mikið lærdómsferli að skrifa þessa ritgerð. Ég fékk aðgang að frumheimildum og tók viðtöl við lykilaðila sem ég geri þó ekki grein fyrir í ritgerðinni. (Lögfræðilega aðferðafræðin sko!) Einna eftirminnalegast var að skoða útboðsgögnin frá því þegar starfsemi Isnic var upphaflega seld til einkaaðila. Af þeim má ráða að það var ekki djúpstæður skilningur á starfseminni eða eðli hennar af hálfu söluaðila á sínum tíma – svona svo vægt sé til orða tekið…  Í ljósi fjarskiptaáætlunarinnar ákvað ég að skanna ritgerðina inn og gera hana aðgengilega á netinu. Bara beint á internetið með öllu krotinu og leiðréttingunum og handpáruðu samantektinni í efnisyfirlitinu. Mér sýnist á öllu að tími tæknilögfræðinnar sé loksins runninn upp á Íslandi svo kannski gæti þessa rúmlega áratuga gamla ritgerð vakið forvitni fleiri en nánustu fjölskyldumeðlima minna.

Ritgerðin nýttist síðan ansi vel við undirbúning frumvarps um landslénið sem ég samdi að meginstefnu til og var lagt fram með breytingum á 139., 140. og 141. löggjafarþingum. Ýmsir vankantar voru á fyrirkomulaginu sem var lagt til í frumvörpunum, en mér er ekki síður minnistætt hversu erfitt var að ná fram lausnarmiðaðri umræðu um þá þætti á  meðan frumvarpið var til meðferðar þingsins. Það náðist því ekki fram málamiðlun um það hvernig væri hægt að sníða þessa vankanta af. Sum gagnrýni var líka minna fagleg og meira persónuleg sem gagnaðist aðallega til þess að halda vöku fyrir mér, minna til þess að ýta málinu áfram. En ég hlakka mikið til að sjá nýja frumvarpið sem ég viss um að verður flott, í takt við aðra vinnu sem hefur verið að eiga sér stað á sviði netöryggismála. Mjög spennandi.

 

Nafnlaus kosningaáróður á netinu

Árið 2017 kom út skýrsla um stöðu fjölmiðla í Danmörku sem sýndi að fjárhagsvandi þarlendra fjölmiðla átti ekki síst rætur í minnkandi hlutdeild danskra fjölmiðla í tekjum á dönskum auglýsingamarkaði og að auglýsendur beindu viðskiptum sínum í auknu mæli til samfélagsmiðla, leitarvéla og annarrra stafrænna auglýsingaleiða sem skiluðu sér ekki í tekjum fyrir fjölmiðla.  Í skýrslunni er meðal annars fjallað um það að danskir fjölmiðlar séu í raun háðir  alþjóðlegum tæknirisum í starfsemi sinni; hvort heldur sem varðandi innviði og dreifingu efnis, eða við tekjuöflun til dæmis í gegnum auglýsingasölu. Í skýrslunni eru Google og Facebook talin algerir lykilaðilar í þessu samhengi. Skýrslan var meðal þeirra þátta sem lágu til grundvallar stefnu ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlamálum sem kynnt var sumarið 2018. Stefnan felur m.a. í sér verulega breytt hlutverk ríkismiðilsins, afnám virðisauka á stafræna miðla og aukinn fjárhagslegan stuðning við staðbundna fjölmiðla. Í janúar sama ár skilað nefnd um rekstrarstöðu fjölmiðla á Íslandi  skýrslu þar sem lagðar voru til breytingar á fjölmiðlaumhverfi á Íslandi sem svipaði um margt til þeirra sem danska ríkisstjórnin hefur hrint úr vörn. Frumvarp sem byggir að einhverju leyti á tillögur nefndarinnar hefur verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Það eru þó ekki aðeins þeir sem auglýsa í markaðslegum tilgangi sem beina auglýsingum sínum í auknu mæli á netinu án sérstakrar aðkomu fjölmiðla. Síðustu misseri hafa nafnlausar pólitískar auglýsingar á netinu og áhrif þeirra á kosningar og lýðræðislega umræðu og ákvarðanatöku verið til umræðu í fjölmörgum ríkjum, meðal annars á Íslandi. Þessi umræða er mislangt á veg komin, einna lengst í Bandarikjunum þar sem áhrif rússneskra tröllaverksmiðja á síðustu forsetakosningar hafa verið til umræðu og í Bretlandi þar sem sumar áróðursauglýsingar um útgöngu breta úr Evrópusambandinu töldust í andstöðu við kosningalög.  Í Kanada voru nýlega sett lög til þess að koma í veg fyrir nafnlausar kosningaauglýsingar á netinu. Þau eiga að taka gildi í sumar. Núna hefur Google upplýst um að fyrirtækið ætli að banna allar kosningarauglýsingar sem ætlað er að birtast í tengslum við kosningar í Kanada vegna þess að félagið telur sig ekki geta uppfyllt skilyrði laganna um að skýrt sé hvaða aðili standi á bak við auglýsinguna á hverjum tíma. Þetta komi meðal annars til af því tæknilega umhverfi sem Google styðst við varðandi auglýsingar sem sé aðeins ólíkt því sem flestir stóru samfélagsmiðlarnir nota. Þetta er útskýrt þannig að Google styðjist við einskonar rauntímauppboðskerfi sem þó er með persónusniði, en samfélagsmiðlar á borð við Facebook og Instagram byggi á keyptu auglýsingaplássi sem miðar við tiltekinn markhóp – líkara því sem hefðbundnir fjölmiðlar byggja á.

Facebook gerir nú kröfur um að þeir sem vilja dreifa kosningaauglýsingu í gegnum miðilinn veiti greinargóðar upplýsingar um þann aðila sem stendur að dreifingunni. Þetta á þó aðeins við um nokkur ríki, meðal annars Bandaríkin og Bretland. Þetta á hins vegar ekki við um kosningaauglýsingar sem ætlað er að birta á Íslandi. Þetta er meðal þeirra þátta sem útskýrir úrræðaleysi gagnvart nafnlausum kosningaáróðri í gegnum netið á Íslandi, nú síðast í tengslum við yfirstandandi kjaradeilur.

Dæmið frá Kanada sýnir að lagasetning ríkja sem gerir ráð fyrir einni tegund upplýsingamiðlunar frekar en annarri getur haft áhrif á það  með hvaða hætti auglýsingum er beint að kjósendum á netinu. Í þessu tilviki virðast reglurnar við fyrstu sýn betur sniðnar að viðskiptamódeli samfélagsmiðla heldur en leitarvéla. Lagasetningin getur þannig haft ólík áhrif á mismunandi hópa samfélagsins út frá nethegðun fólks, hvort heldur sem það var ætlun löggjafans eða ekki. Reynslan á svo eftir að sýna hversu virk lagasetningin mun reynast í að tryggja gagnsæi í upplýsingamiðlun í aðdraganda kosninga í Kanada.

Photo by Element5 Digital on Pexels.com

.

Mega lögmenn meiða æru dómara?

blur close up focus gavel

Það er auðvitað óþolandi að kunna ekki almennilega frönsku. Ég finn sérstaklega fyrir þessu þegar það koma spennandi mál frá Mannréttindadómstólnum sem eru bara birt á frönsku. Samantektin er þó á ensku og google translate getur komið sér vel. Til dæmis í gær. þegar ég var að leita að niðurstöðu dómstólsins í máli gegn Íslandi og rakst á niðurstöðu dómstólsins í máli lögmannsins Pais Pires de Lima gegn Portúgal.

Lögmaðurinn hafði árið 2007 skrifað bréf til dómstólasýslunnar til þess að kvarta undan hlutdrægni dómara sem hann sakaði um spillingu, svik og mútuþægni í refsimáli gegn umbjóðanda lögmannsins. Kvörtuninni var vísað frá og í framhaldinu fór dómarinn í meiðyrðamál við lögmanninn sem hann vann og voru dæmdar 50 þúsund evrur í bætur. Eftir kæru lögmannsins til æðra dómstigs var málið aftur tekið til efnismeðferðar á fyrsta dómsstigi árið 2010, þar sem komist var að sömu niðurstöðu og í fyrra málinu. Dómarinn og lögmaðurinn áfrýjuðu báðir til æðra dómstigs sem hækkaði bótafjárhæðina uppí 100 þúsund evrur. Lögmaðurinn fékk málinu skotið til Hæstaréttar sem lækkaði bótafjárhæðina í 50 þúsund evrur. Árið 2009 mátti lögmaðurinn svo sæta áminningu frá portúgalska lögmannafélaginu vegna þess að hann hafði ekki upplýst dómaranna fyrirfram um að hann ætlaði að leggja fram kvörtun vegna hans, eins og þó var uppálagt í reglum félagsins. Með kæru til Mannréttindadómstólsins árið 2012 taldi lögmaðurinn að niðurstaða dómstóla  um bótaskyldu vegna ærumeiðinga í garð dómarans hefði brotið gegn tjáningarfrelsi hans sem nýtur verndar 10. gr. sáttmálans.

Mannréttindadómstóllinn féllast á að brotið hefði verið á réttindum lögmannsins með niðurstöðu um bótaskyldu vegna kvörtunarinnar. Það var þó ekki ábyrgðargrundvöllurinn sem slíkur sem brotið fólst í, enda taldi dómstóllinn samræmast skilyrðum ákvæðisins að gera lögmanninum að sýna fram á réttmæti þessara ásakana sem sannarlega voru alvarlegar og settar voru fram sem staðhæfing um staðreynd, ellegar sæta bótaábyrgð vegna þeirra. Hins vegar taldi dómstóllinn upphæð bótanna úr öllu hófi, sérstaklega þar sem ásakanirnar voru ekki gerðar opinberar eða birtar almenningi fyrir tilstuðlan lögmannsins. Vegna þessa taldi dómstóllinn brotið gegn réttindum lögmannsins sem njóta verndar 10. gr. sáttmálans þar sem að skerðingin hefði ekki gætt meðalhófs og því ekki verið nauðsynleg í lýðræðislegu samfélagi.

Mér finnst áhersla dómstólsins á það hvernig ásakanirnar voru settar fram áhugaverðar. Það að setja fram ásakanir af þessu tagi og fara fram á að þær verði rannsakaðar í erindi til þar til bærra aðila virðist þannig skapa þrengra umfang fyrir bótagrundvöll heldur en ef ætlan lögmannsins hefði verið að hafa áhrif á almenningsálit eða meiða æru dómarans opinberlega. Hefði bótafjárhæðin verið ásættanleg, og þar af leiðandi ekki falið í sér brot gegn tjáningarfrelsinu, ef ásakanirnar hefðu birtst í útgefinni bók eða heilsíðugrein í fjölmiðlum? Það kemur væntanlega í ljós hvort dómarar við Hæstarétt Íslands eru betri en ég í frönsku þegar þeir fjalla um ærumeiðingarmál íslensks dómara gegn lögmanni vegna þess sem kom fram í bók lögmannsins.

Photo by Pixabay on Pexels.com