Lagasetning, stéttarfélög og laun kvenna.

Capture

Internetið gefur misvísandi svör um hvernig tilvitnunin í Einar Benediktsson varðandi gildi fortíðarinnar fyrir framtíðina er rétt höfð eftir. Það er ekki samhljómur um hvort það eigi að huga að fortíðinni þegar það sé framtíð eða frumlegt sem á að byggja. Inntakið er þó það sama; þekktu söguna áður en þú skrifar framhaldið. Í haust hef ég unnið að nokkrum spennandi lögfræðiverkefnum fyrir aðila á Íslandi samhliða doktorsritgerðarskrifum. Eitt þeirra hefur krafist ansi djúprar innsýnar í íslenska löggjöf um jafnrétti kynjanna, þróun hennar og framkvæmd. Greinargerðir sem fylgja með frumvörpum sem verða að lögum eru mikilvægar til þess að skilja hvað löggjafanum gengur til með lagasetningunni, samhengið sem hún sprettur úr og útskýringar á því hvers vegna grípa þurfi til hennar. Fortíð frumvarpsins er þannig hengt við framtíð þess til að tryggja sem besta framkvæmd laganna.

Ég, eins og aðrir lögfræðingar sem hafa unnið hjá stjórnarráðinu, hef skrifað þónokkrar greinargerðir með frumvörpum sem sum hafa orðið að lögum. Stjórnarfrumvörp verða jú flest til í ráðuneytum, skrifuð af sérfræðingum í viðkomandi málaflokki með aðstoð annarra lögfræðinga og starfsmanna ráðuneyta og stofnanna, en líka með hliðsjón af umsögnum hagsmunaraðila og samráði. Í þessum störfum, eins og öðrum sem lögfræðingar í ráðuneytum fást við, þarf stundum að sætta sig við að textinn sem maður skrifar er ekki manns eigin og að tillögurnar eða útfærslunar verði öðruvísi en maður sjálfur vildi. Það er semsagt ekki alltaf við þann sem skrifar að sakast þegar það er eitthvað rugl í greinargerðum með frumvörpum. Eftir því sem ég les meira af greinargerðum með frumvörpum til laga um jafnréttismál í gegnum tíðina verð ég hræddari um að frumvörpin sem ég hef skrifað verði jafn úrelt og vandræðaleg frá sjónarhóli framtíðarinnar og þessir minnisvarðar um samfélagslega þróun jafnréttismála. Ég hef minni áhyggjur af þingmálunum sem ég kom að því að undirbúa þegar ég sá um fjarskiptamál, enda fjalla þau flest um tæknileg mál sem er skiljanlegra og viðurkenndara að þróist með tilteknum hætti og verði úrelt. Tækni er einhvernveginn öðruvísi en samfélag að þessu leyti. Það eru  þess vegna þingmálin sem fjalla um samfélagsleg álitaefni;  málefni útlendinga, fatlaðs fólks, persónuvernd og mannréttindamálin sem ég frekar áhyggjur af því að verði dæmd af lögfræðingum framtíðarinnar sem dæmi um vandræðalega vanþróuð viðhorf sem liggja til grundvallar lagasetningu. Sérstaklega í þeim tilvikum sem ég veit að viðhorfin eru framsýn í nútímanum.

Ég fann mjög sterkt fyrir þessu þegar ég var að vinna með frumvarp til laga nr. 60 frá 1961 um launajöfnuð kvenna og karla. Frumvarpið miðaði að því að tryggja  með lagasetningu að konur fengju sömu laun og karla fyrir að vinna sömu störf. Það er í sjálfu sér vitnisburður um ýmislegt í íslensku samfélagi að þrátt fyrir að slíkt ákvæði hafi verið í lögum allar götur síðan, hafi aftur þurft að setja sérstök lög um jöfn laun karla og kvenna árið 2017. Fortíðin er auðvitað oftar nær framtíðinni en við gerum okkur grein fyrir. Greinargerðin með frumvarpinu frá 1961 er um  margt merkileg. Í henni kemur meðal annars fram að jöfn laun sé það eina sem útaf standi til þess að tryggja jöfn mannréttindi karla og kvenna í íslensku samfélagi. Ég er ekki viss um að við séu öll sammála um að það hafi verið staðan, séð héðan úr nútímanum. Það var samt umfjöllun um þörf lagasetningarinnar sem mér finnst standa uppúr í greinargerðinni. Flutningsmennirnir, þrír karlar sem ég er sannfærð um að hafi sýnt framsýni með málinu og gengið gott eitt til með framlagningu þess. töldu lagasetningunu bestu leiðina til að tryggja jöfn laun fyrir sömu vinnu þar sem að aðilar vinnumarkaðarins væru ekki í stakk búnir til þess að leiða málið til lykta með frjálsum samningum.

” Kemur það til af því að verkakvennafélögin hafa ekki bolmagn til að knýja fram kröfuna um launajafnrétti. Á það m. a. rætur sínar að rekja til þess, að konur geta ekki sinnt málefnum stéttarfélags síns á sama hátt og karlar, þar sem þær eru svo bundnar við húsmóðurstörfin og önnur heimaverkefni. Konurnar hafa líka minni áhuga á kjaramálum en karlar, þar sem þær reikna flestar með að taka ekki þátt í atvinnulífinu nema um nokkurra ára skeið, en að því loknu helga sig algerlega húsmóðurstörfunum.”

57 árum síðar, hérna í nútímanum árið 2018, er atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi 80%, með mesta móti í öllum heiminum og líklega miklum mun meira en árið 1961. Þær ættu því að hafa raunverulegan og varanlegan áhuga á kjaramálum núna. Þær eru líka farnar að geta sinnt málefnum stéttarfélaga. Konur gegna núna lykilhlutverk í verkalýðshreyfingunni, með Drífu Snædal sem nýkjörinn forseta ASÍ og Sólveigu Önnu Jónsdóttur sem formann Eflingar. Sonja Ýr Þorbergsdóttir er svo nýkjörinn formaður BSRB sem hefur undir formennsku fyrirrennara hennar Elínar Bjargar Jónsdóttur talað fyrir betri samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs, sem er ein meginforsenda jafnréttis kynjanna á vinnumarkaði því að þrátt fyrir allt og allt bera konur sannarlega enn hitann og þungann af “húsmóðurstörfum og öðrum heimaverkefnum”, þó þær geri það oftast samhliða fullu starfi á vinnumarkaði núna. Þó það sé einhvernveginn svo galið að það eigi að vera verkefni kvenna að tryggja að jafnrétti sé virt á vinnumarkaði virðast samfélagslegu forsendurnar sem þingmennirnir gáfu sér árið 1961 loksins orðnar úreltar. 57 árum síðar. Kannski verður 2018 árið sem að markmið laganna frá 1961 næst og konur fá borgað jafnmikið og karlar við störf á vinnumarkaði.

Dómum dælt á netið í Bandaríkjunum

Frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á fyrirkomulagi við birtingu dóma er fyrir margra hluta sakir athyglivert. Halla Gunnarsdóttir skrifaði áhugaverða grein þar sem hún vakti m.a. athygli á því að fyrirkomulag dómabirtinga er með misjöfnum hætti í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við. Samstarfsfólk mitt hérna í Sussex hefur verið að vinna að verkefnum, bæði á evrópska og enska vísu, sem miða að því að gera niðurstöður dómstóla og réttarheimildir aðgengilegar á netinu með ýmsum hætti. Hæstiréttur í Englandi og Wales hefur gert tilteknar niðurstöður aðgengilegar á netinu frá árinu 2009, en það á ekki við um viðkvæm mál.

Í vikunni var tilkynnt um að á vegum lagabókasafns Harvard háskóla hafi allar dómaúrlausnir sem aðgengilegar voru á pappír í bókasafninu verðið gerðar aðgengilegar á netinu. 40 milljón blaðsíður af dómsniðurstöðum dælt á netið í einni svipan. Það er reyndar tekið fram að niðurstöður frá Illinois og Arkansas ríkjum síðustu ár verði ekki gerðar aðgengilegar, þar sem að þau ríki hafi nýlega byrjað að birta dóma á netinu. Því er ekki talið nauðsynlegt að endurbirta niðurstöðurnar á leitarvélinni hjá Harvard. Mér sýnist aðferðafræðin hafa verið svipuð og þegar dómasafn Hæstaréttar var skannað inn og síðar gert aðgengilegt í gegnum Fons Juris, sem er fyrirtæki sem hefur sannarlega haft jákvæð áhrif á lögfræðistörf á Íslandi.

Mér finnst áhugavert að á Íslandi þar sem dómar hafa verið aðgengilegir á netinu í tæp 20 ár sé nú verið að leggja til þrengri aðgang að dómsúrlausnum á netinu, á sama tíma og þróunin virðist í öfuga átt bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Ég veit ekkert um hvort sé betra eða réttara, en áhugavert er það.

Ennþá sammála sjálfri mér – 12 árum síðar

Ég þurfti aðeins að gramsa á internetinu, en fann loksins þennan pistil sem ég birti á vefritinu tikin.is 6. mars 2006. Það var mjög töff vefrit fyrir ungar hægrikonur. Ég hef verið að hugsa um pistilinn og eftirköstin af birtingu hans frá því að frumvarp um þungunarrof var kynnt til samráðs nýlega. Eftir að ég birti pistilinn var haft samband við mig frá félagi ungra sjálfstæðismanna, ég held alveg örugglega í Garðabæ. Þau buðu mér á málfund til þess að tala fyrir rétti kvenna til þungunarrofs og Stefán Einar Stefánsson, sem var líka háskólanemi á þessum tíma, talaði gegn sama máli. Það var furðuleg uppákoma. Á efri hæð á einhverjum bar í suðvesturkjördæmi, sem hlýtur að hafa verið í Hafnarfirði svona eftir á að hyggja, voru mættir þónokkrir ungir og áhugasamir sjálfstæðismenn (konur eru jú líka menn). Þar talaði ég reyndar lítið um pistilinn, en lagði upp með sömu afstöðu um að sjálfsákvörðunarréttur kvenna ætti að vera grundvallarforsendan. Ég komst varla í gegnum ræðuna mína fyrir frammíköllum fyrr en Stefán Einar bað mér griðs – ég yrði nú að fá tækifæri til að koma mínu á framfæri. Salurinn stillti sig þá þar til kom að spurningum úr sal. Þá var enginn sem stillti sig; einn öskraði á mig að ég væri hræðileg manneskja og hann vonaði að ég myndi aldrei eignast börn. Það var meira svona athugasemd frekar en spurning. Spurningarnar snerust um hvort mér væri í raun og veru alvara? Hvort mér þætti boðlegt að bera á borð svona rökleysu? Engum sem tók til máls fannst rökin eða sjónarmiðin sem ég talaði um hafa nokkurt vægi. Ég hafði eytt tíma þeirra og þau voru ekki hrifin svo ekki verði meira sagt. Það sem hefur setið í mér síðan var þessi rosalega heift í þessum hópi jafnaldra minna. Ég hef ekki hugmynd um hvort afstaða þeirra sé ennþá jafn gallhörð eftir að þau urðu fullorðin. Ég er í það minnsta ennþá sammála sjálfri mér, 12 árum síðar.

Pistillinn var svona: 

“Þann 12. janúar árið 2006 birtist grein á vefriti félags ungra frjálshyggjumanna. Þar hafði formaður félagsins orðið.
Í greininni útlistar formaðurinn skoðun sína á hversu óréttlætanlegar fóstureyðingar eru og að mjög fátt gefi konu afsökun til þess að eyða fóstri sem hún gengur með. Formaðurinn fjallar um mannlegar aðstæður sem hann segir ekki nokkra einustu afsökun fyrir eða réttlætingu á að kona fari í fóstureyðingu. Verðandi móðir þurfi einfaldlega að axla ábyrgð á því að hafa stundað kynlíf. Ef hún vill ekki eiga barnið þá getur hún bara gefið það til ættleiðingar. Áhugaverðasta röksemdafærsla formannsins verður þó að teljast umfjöllunin um konuna sem verður ófrísk eftir að hafa verið nauðgað. Formanninum þykir að sjálfsögðu miður að réttindi hennar séu skert og hefur samúð með henni – en aðstæðurnar engu að síður ekki réttlæta fóstureyðingu. Formaðurinn klykkir hins vegar út með því að lýsa þeirri skoðun sinni að hann geti fyrirgefið verðandi foreldrum að fara í fóstureyðingu ef líf móðurinnar er í hættu og fóstureyðing eina leiðin til þess að bjarga móðurinni.

Þann 2. mars árið 2006 birtist önnur grein á öðru íslensku vefriti. Þar er á ferðinni annar ungur maður, sem jafnframt er ritstjóri vefritsins.
Ritstjórinn gerir að umfjöllunarefni sínu nýtt lagafrumvarp sem lagt hefur verið fram í Suður-Dakóta fylki Bandaríkjanna og fagnar efni þess. Lagafrumvarpinu er ætlað að banna fóstureyðingar í fylkinu, nema í þeim tilvikum þegar líf móðurinnar er í hættu vegna meðgöngunnar. Ritstjórinn gerir sér grein fyrir því að ekki séu allir sammála honum að fagna beri efni slíks frumvarps (enda oft svo víðsýnir þessir ritstjórar) og vekur athygli á hvernig ábyrgð einstaklingsins á gjörðum sínum, líf barns og réttindi föður séu látin víkja fyrir rétti móður til friðhelgi einkalífs með heimildinni til fóstureyðinga. Að lokum vísar ritstjórinn í skrif formannsins um sama efni sem ritstjóranum þykja ágæt.

Ég stoppaði líka þegar ég var búin að lesa skrif foringjanna. Stoppaði og velti því fyrir mér hvort það væri ekki alveg örugglega árið 2006. Hvort að ungum frelsishyllandi mönnum í dag þætti töff að finnast mismunun bara ónóg í samfélaginu, eða hvort þeim finnist konur einfaldlega ekki starfinu vaxnar þegar kemur að því að taka ákvarðanir um þeirra eigið líf. Ef svo er, þá er frelsið aldeilis á undanhaldi þegar kemur að hugsjónum hinna ungu forystumanna. Svo getur verið að þeir hafi bara verið að djóka. Það væri nú alveg grillað grín. Alveg útúr flippað og kreisí.

Athugasemdir foringjanna um að aðstæður einstaklinga geti ekki réttlætt fóstureyðingar eru í fullkomu ósamræmi við málflutning þeirra um að konur axli ekki ábyrgð á gjörðum sínum þegar þær fari í fóstureyðingu. Í vissum tilvikum er ekkert ábyrgðarfyllra en að taka meðvitaða og upplýsta ákvörðun um líf sitt og framhald þess. Ábyrgðarlaus voru hins vegar orð formannsins þar sem látið var að því liggja að það að gefa frá sér barn til ættleiðingar væri eins auðvelt og að gefa einhverjum sem væri kalt peysuna sína. Ábyrgðarleysi er það að sýna ónotalegt viðhorf í garð þeirra sem hefur verið nauðgað og að formaðurinn skuli láta sér detta í hug að jafna frumubreytingu sem verður til við nauðgun við frumubreytingu sem verður til með kynlífi hlýtur að teljast í minnsta lagi hrópandi vafasamt.
Orðum fylgja nefnilega ábyrgð rétt eins og gjörðum.

Það er erfitt að gera ekki grín að fullyrðingum formannsins um að nauðgarinn yrði bara að axla sína ábyrgð á afurð nauðgunar sinnar og sjá fyrir barninu á allan hátt í framtíðinni. Hvílíkur lúxus að fá barnameðlag frá manninum sem nauðgaði þér í hverjum mánuði í 18 ár! Væri kannski gaman að deila forsjánni líka, búa í sama hverfi svo barnið njóti stöðugleika í uppvextinum og fara saman í foreldraviðtöl.
Svo frábærir svona nauðgarapabbar sem taka virkan þátt í lífi barna sinna. Og sinna framfærsluskyldunni eitthundrað prósent líka auðvitað!

Það sem mér þótti verst við lestur greinanna var sú undirliggjandi afstaða foringjanna tveggja til þess að konur bara kíkji í fóstureyðingu eins og það sé bara að skreppa í bíó. Þetta sé svona háttarlag sem ráðist bara af tímasetningunni og hvort maður eigi pening fyrir því.

Það er áhyggjuefni ef menn, sérstaklega þeir sem gefa sig út fyrir að berjast fyrir hugsjón sem snýst um að koma frelsi á hærri stall í samfélagi mannanna, vilja sjá takmarkanir á frelsi einstaklinga með vísan til réttinda fruma á hinum ýmsu þroskastigum! Það hlýtur að vera ástæða til þess að efast um að ritstjórinn átti sig á efnislegu inntaki hugtaka eins og mannréttindi og friðhelgi einkalífsins ef honum þykir bann við fóstureyðingum hæfilega langt gengið í lögbundinni frelsisskerðingu þegnanna. Það getur bara ekki annað verið.”

 

Topp 19 listinn yfir spennandi mál á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar 2018 – 2019

Þingmálaskráin í ár er algert GÚRM! Hlaðborð af spennandi málum! Hérna er topp 10 listinn minn yfir spennandi mál. Hann gat ekki verið styttri en topp 19 í þetta skiptið. 5 mál til viðbótar eru svo á varamannabekknum (eða er það kallað viðbragðslisti?) svona ef eitthvað mál af topplistanum fær ekki framgang.

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, og lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála (afnám gagnageymdar o.fl.).
    Þetta er eitt af tjáningarfrelsis frumvörpunum fimm. Risavaxið dæmi. Afnám gagnageymdar og þrenging á heimildum lögreglu til þess að afla gagna frá fjarskiptafyrirtækum. Á vorönninni er ég að fara að kenna aftur námskeið um afbrot og löggæslu á netinu í Háskólanum á Akureyri og það er óhætt að segja að ég þurfi að endurskrifa glærurnar ef þessi breyting fer í gegn. Það er ýmislegt sem ég skil hreinlega ekki alveg í frumvarpinu svo ég er gríðarlega spennt að fylgjast með þessu máli.
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála (upplýsingar um tengsl farsíma við farsímasenda).
    Þetta mál lætur kannski lítið yfir sér en það er risastórt. Í dómi frá 2012 féllst Hæstiréttur ekki á að lögreglan gæti fengið aðgang að gögnum um hvaða símar hafi tengst tilteknum sendi á tilteknu tímabili, í tengslum við rannsókn á nauðungarmáli. Það væri of víð túlkun á 80. gr. sem ætti að túlka í samræmi við skilyrði eldri laga um að svo að heimildin yrði beitt þyrfti að liggja fyrir rökstuddur grunur um að tiltekinn sími hafi verið notaður í tengslum við refsivert brot. Þetta virðist því vera heljarinnar breyting sem er lögð til.
  3. Frumvarp til laga um net- og upplýsingaöryggi – NIS.
    Gríðarlega mikilvægt frumvarp um risastóra hagsmuni. Þetta frumvarp þarf tíma og skoðun. Það felur í sér innleiðingu á evróputilskipun og var á listanum mínum fyrir spennandi þingmál í fyrra líka. Hér verður fjallað um alla helstu innviði samfélagsins; orkuveitna, flutninga, bankaþjónustu, fjármálamarkaða, heilbrigðisþjónustu, vatnsveitna og stafrænna grunnvirkja. Það er líka fjallað um að veitendur stafrænnar þjónustu eigi að heyra undir gildissvið laganna; netmarkaðir, leitarvélar á netinu og aðilar sem veita skýjaþjónustu. Þá mun frumvarpið fela í sér heildarlöggjöf um net- og upplýsingaöryggi og þörf er á að færa tiltekin ákvæði sem nú eru í fjarskiptalögum inn í frumvarpið. Umsagnirnar um þetta frumvarp verða örugglega lestrarins virði. Mjög spennandi mál!
  4. Frumvarp til laga um mannréttindastofnun.
    Ég er rosalega spennt yfir þessu máli og hvaða fyrirkomulagt verði lagt til grundvallar. Mér finnst þessi tillaga frá 2012 sem aldrei var rædd í þinginu ansi sannfærandi (mjög hlutlaust mat.)
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu (takmörkuð ábyrgð hýsingaraðila).
    Lögð er til breyting á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu þess efnis að undanþágur frá ábyrgð hýsingaraðila á gögnum sem hann hýsir verði skýrari. Ég ætlaði að vera búin með kaflann í ritgerðinni minni um ábyrgð milliþjónustuaðila á netinu í desember, en ég þarf augljóslega að fresta því miðað við þetta frumvarp. Hérna er bara vísað til breytinga í tengslum við höfundarétt, en í ljósi alþjóðlegrar umræðu um ábyrgð milligönguaðila á netinu finnst mér ekki séns að þetta ákvæði sé opnað á Íslandi án þess að af stað fari víðari umræða. Held að þetta frumvarp eigi eftir að koma á óvart í umræðum og umsögnum. Bara klára málið áður en ég þarf að skila ritgerð takk.
  6. Frumvarp til laga um meðferð persónuupplýsinga í löggæslutilgangi (löggæslutilskipunin). Í mörgum ríkjum var þessi tilskipun innleidd samhliða almennu persónuverndarlöggjöfinni, en ekki á Íslandi. Það hefur lengi legið fyrir að það séu tækifæri í því að bæta LÖKE kerfið, það ætti að vera tilvalið að gera það í samhengi við eða framhaldi af þessu máli.
  7. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Held að það sé svo mikilvægt að halda utan um svona víðfeman málaflokk þar sem margir hafa hlutverk á einum stað. Mikilvægt mál um ríka samfélagslega hagsmuni.
  8. Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, o.fl. (tjáningarfrelsi og þagnar­skylda opinberra starfsmanna).
    Ég er svo spennt fyrir þessu frumvarpi að ég skrifaði um það bakþanka!
  9. Frumvarp til laga um vernd uppljóstrara. Löngu löngu löngu tímabært mál.
  10. Frumvarp til laga um refsingu við hópmorðum. Líka svo löngu tímabært.
  11. Frumvarp til laga um bætur vegna ærumeiðinga. Spennandi að sjá yfirfærslu af refsisviðinu yfir á einkaréttarsvið. Spurning hvaða áhrif þetta mun hafa á að fólk láti reyna á rétt sinn.
  12. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (haturs­orð­ræða). Ég sá í greinargerðinni að efnislega vernd ákvæðisins verður ekki útvíkkuð þannig að hún taki til kyns. Þá er lögð til þrenging á ákvæðinu þannig að háttsemin þurfi að vera til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofsóknum eða mismunun. Er ekki alveg viss hvað mér finnst, en hlakka til að lesa umsagnir og fylgjast með umræðunni.
  13. Frumvarp til laga um traustþjónustu. Mjög mikilvægt mál fyrir rafræn samskipti og að þetta takist vel er forsenda þess að ýmsiskonar þjónusta geti orðið í auknu mæli stafræn.
  14. Frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla. Spennandi hvort hérna verði einhversskonar charity löggjöf eins og Bretlandi. Skattaumhverfið er hagfellt þannig rekstrarformi og því eru flestir háskólar og fjölmargar stofnanir reknar sem charity.
  15. Frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði.
    Mjög spennandi fyrir réttarstöðu kynsegin fólks. Kveður á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina sjálfir kyn sitt og tryggja að kynvitund þeirra njóti viður­kenn­ingar. Frumvarpinu er einnig ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. (Febrúar)
  16. Frumvarp til laga um þungunarrof. Auðvitað.
  17. Frumvarp til laga um samskiptafulltrúa íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar.
    Þó það komi ekki fram í heiti frumvarpsins felur það einnig í sér að bætt verði við ákvæði í íþróttalög þar sem m.a. er mælt fyrir um að óheimilt verði að ráða einstaklinga til starfa hjá íþróttafélögum eða þiggja framlag þeirra sem sjálfboðaliða hafi þeir hlotið refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum kynferðisbrota­kafla almennra hegningarlaga. Fyrsta frumvarpið sem lagt er fram og telja má bein áhrif af #metoo. Vona að þetta verði efni til umræðu í víðari skilningi um hvaða áhrif kynferðisbrotadómar eiga að hafa á einstaklinga og þeira borgaralegu réttindi eftir að þeir hafa tekið út dóm. Þetta er umræða sem mér þykir nátengd uppreist æru frumvarpi dómsmálaráðherra.
  18. Frumvarp til laga um póstþjónustu.
    Ég er bara svo spennt fyrir að það veðri hugsanlega loksins lagt fram frumvarp um afnám einkaréttar í póstþjónustu. Búið að vera til umræðu eeeeeeeendalaust og er svo löngu tímabært! Allt áhugafólk um aukna samkeppni hlýtur að flykkja sér á bak við þetta mál.
  19. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samninga við Bretland vegna útgöngu þeirra úr EES (réttindi borgaranna og hugsanlega önnur útgönguatriði).
    Staðfesting samninga sem gerðir verða í tengslum við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þetta er bara áhugavert af persónulegum ástæðum svona af því að ég bý í Bretlandi og það er óhætt að segja að þetta Brexit óvissuástand er óspennandi. Virkilega spennt að sjá hvort og þá hvenær okkur verður hent úr land.

Topp 5 listinn yfir mál sem komust ekki á listann en eiga það skilið:

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2016, um dómstóla, lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála (endurupptaka dæmdra mála).
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2005, um dómstóla, o.fl. (birting dóma).
  3. Frumvarp til laga um skráningu einstaklinga.
  4. Frumvarp til laga um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og netafnot tónlistar yfir landamæri.
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2011, um fjölmiðla (stuðningur við rekstur einkarekinna fjölmiðla). listi

Kvenhatur – kynning

Ég hef ekki haft tækifæri til að setja mig inní mál háskólakennara sem mikið hefur verið fjallað um undanfarið. Þó þetta sé leiðinlegt mál sem ég held að geti verið ansi þungbært fyrir manninn og ég hafi samúð með honum, er þetta að mörgu leyti afar spennandi lagalegt álitaefni. Að hve miklu leyti geta persónulegar skoðanir okkar eða viðhorf haft áhrif á störf okkar, sérstaklega þeirra sem gegna störfum í krafti sérfræðiþekkingar sinnar með einum eða öðrum hætti? Það er áhugavert að máta málið eins og það birtist í fréttum við einstaklinga sem gegna annars konar störfum í samfélaginu og velta fyrir sér hvort viðbrögin ættu að vera önnur. Væri í lagi að dómari myndi skrifa svona? En starfsmaður á elliheimili? Og hvenær erum við að opinbera skoðanir á opinberum vettvangi þegar við skrifum eitthvað á netið og hvenær erum við bara að grína við vini okkar eins og við eldhúsborðið heima? Seinni spurningunni svara ég meðal annars í ritgerðinni sem ég er nú enn ekki búin að skrifa, en eins og ég skrifaði um varðandi niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Egils Einarssonar eru mörkin á milli hins opinbera rýmis og einkarýmis sífellt óljósari á þessum stafrænu samskiptatímum.

Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér stöðu kvenna í opinberri umræðu eftir að hafa meðal annars tekið þátt í norrænu samstarfi fyrir hönd Mannréttindaskrifstofu Íslands um konur, netið og lögin og komið að norrænni rannsókn  um lagalega umgjörð haturs og hótana gegn konum á netinu. Í mars hélt ég svo erindi á Jafnréttisþi

man in white shirt using tablet computer shallow focus photography
Photo by Pixabay on Pexels.com

ngi þar sem ég velti því upp hvort að #metoo sögurnar kölluðu á lagaleg viðbrögð frá stjórnvöldum, til dæmis með því að telja kvenhatur til þeirra þátta sem taldir eru grafa undan lýðræðislegum hagsmunum og fjallað er um í ákvæði hegningarlaga sem fjallar um það sem kallað hefur verið haturstal eða hatursáróður. Ég er að vinna að verkefni um þessar mundir þar sem ég reyni að svara þessari spurningu. Þess vegna hef ég ekki haft tíma til að setja mig inní mál kennarans. En ég deili hérna glærunum frá fyrirlestrinum frá því í mars, smá kynningu á kvenhatri og skyldum málum. Konur og haturstal í opinberri umræðu

Kynlífskúgun

Í nýlegri frétt Norska ríkissjónvarpsins er fjallað um skipulega starfsemi sem kölluð er “sextortion” og hugsanlega gæti vísast til sem kynlífskúgun á íslensku. Þá er stofnað til samskipta við einstakling í gegnum stafræna miðla, sem standa yfir þar til hann hefur verið fenginn til þess að deila viðkvæmum myndum eða myndskeiðum í því sem hann heldur vera trúnaðarsamband. Viðkomandi eru svo settir afarkostir um að efninu verði dreift til allra sem viðkomandi þekkir á netinu, nema hann reiði fram greiðslu sem oft eru háar fjárhæðir. Norsk lögreglyfirvöld hafa áhyggjur af því að ungir menn séu sérstaklega útsettir fyrir því að verða fyrir háttsemi af þessu tagi. Þau gefa þeim sem verða fyrir kynlífskúgun eftirfarandi ráð um hvernig sé rétt að bera sig að:
– hættu samskiptum
– ekki borga lausnarfjárhæðina, en hafði samband við lögregluna.
– ekki eyða samskiptasögunni eða viðkomandi forriti. Þau geta verið mikilvæg sönnunargögn.
Þeirra reysla er ennfremur að þegar samskiptum sé hætt án greiðslu færi brotamenn sig einfaldlega áfram til næsta þolanda, þar sem starfsemin er skipuleg og oft umfangsmikil.

Mér finnst þetta merkileg frétt og held að svipuð staða sé á Íslandi þó að engin sé tölfræðin til. Á Íslandi, þar sem svo mikið traust ríkir í samskiptum og samfélaginu verður kannski ekki eins knýjandi að þjálfa börn og ungmenni í öruggri netnotkun og því í hverju hætturnar leynast. Þar sem notkun stafrænna samskipta er með því mesta í heiminum hér á landi er heldur ekki ólíklegt að fólk noti stafræna samskiptamiðla með hispurslausum hætti í samanburði við það sem gerist í öðrum ríkjum. Þrátt fyrir ýmis góð ráð og verkefni á vegum SAFT – heimili og skóli held ég að það sé nauðsynlegt að fara í einhverja markvissar aðgerðir hvað þetta varðar. Hugsanlega væri hægt að gera það í framhaldi af nýju persónuverndarlöggjöfinni, þar sem kveðið er á um að að börn þurfi að vera 13 ára til að samþykki þeirra fyrir vinnslu persónuupplýsinga þeirra í “þjónustu í upplýsingatæknisamfélaginu”, þar á meðal samfelagsmiðla, hafi gildi. Ég held að það sé engin vanþörf á fyrir bæði foreldra og ungt fólk á Íslandi að ræða um notkunarskilmála samfélags- og samskiptamiðla og hvernig megi tryggja öryggi barna og ungmenna betur.

apps blur button close up
Photo by Pixabay on Pexels.com

Áhrif persónuverndarreglugerðarinnar á starfsemi Evrópudómstólsins.

Reglugerð um vinnslu persónuupplýsinga tók gildi innan Evrópusambandsins þann 25. maí sl. Með reglugerðinni er fyrirtækjum, stofnunum og þeim sem vinna persónuupplýsingar í skilningi laganna gert að grípa til ráðstafana til þess að tryggja örugga meðferð persónupplýsinga einstaklinga. Hún hefur hins vegar víðtækari áhrif eins og má greina í nýlegri yfirlýsingu frá Evrópudómstólnum. Með yfirlýsingunni upplýsir dómstóllinn um að vegna rreglugerðarinnar verði reglum réttarins varðandi nafnbirtingu einstaklinga í forúrskurðum dómstólsins breytt. Tilgangurinn sé að auka persónuvernd einstaklinga. Þetta hyggst dómstóllinn gera þannig að ekki verður lengur vísað til nafns einstaklings sem málsaðila eins og tíðast hefur hingað til, heldur verða notaðir tveir bókstafir auk auðkennandi sértákna. Þetta gerir dómstóllinn meðal annars í ljósi möguleika á varanleika og útbreiðslu upplýsinganna sem nútíma tækni hefur í för með sér.

Forsendur ákvörðunarinnar eru athygliverðar fyrir margar sakir. Til að mynda vísar dómstóllinn ekki til sérstakra ákvæða í reglugerðinni varðandi ákvörðun sína heldur almennt til þess að rétt sé að auka persónuvernd einstaklinga. Eins og dómstóllinn hins vegar tekur fram gilda sérstakar reglur um meðferð og vinnslu persónuupplýsinga hjá stofnunun ESB sem eru enn í gildi, þrátt fyrir að fyrirhugaðar séu breytingar á henni. Þannig eru ákvæði reglugerðinnar í sjálfu sér ekki bindandi fyrir dómstólinn hvað varðar starfsemi hans. Í þessu ljósi er tilvísun dómstólsins til hins stafræna veruleika og áhrif hans á dreifingarmöguleika og leit enn áhugaverðari, sérstaklega þegar horft er til málanna sem vísað er til í yfirlýsingunni.

Fyrirkomulagið sem dómstóllinn ætlar að taka upp frá og með deginum í dag líkist fyrirkomulagi sem er við lýði í mörgum ríkjum varðandi viðkvæm mál sem rekin eru fyrir dómstólum; svo sem mál sem rekin eru fyrir sifjaréttardómstólum í Englandi og Wales. Sumir hafa bent á að þetta sé ekki fyrirmyndarfyrirkomulag, annars vegar vegna þess að hluti af opnu réttarkerfi sé að vita hverjir eigi aðild að réttarágreiningi sem er til úrlausnar fyrir dómstólum og hins vegar vegna þess að hugsalegt sé að samsetning tveggja bókstafa og eins sértákns sé eðlis síns vegna takmörkunum háð og geti valdið ruglingi í framkvæmd og fræðum þegar fram í sæki.

Þetta er enn eitt dæmið um það hversu áhrifamikil persónuverndarreglugerðin er, út fyrir upphaflega áætlað gildissvið sitt.

 

Konur og hatur á netinu

Vegna rannsóknarinnar minnar sem fjallar um áhrif internetsins á mannréttindaskuldbindingar ríkja, hefur ég skoðað mörk tjáningarfrelsis á netinu frá ýmsum sjónarhornum. Eitt þeirra eru mörk tjáningarfrelsis og hatursfullra tjáninga. Þetta hef ég sérstaklega skoðað með hliðsjón af stöðu kvenna, en ekki síður margþættri mismunun. Ég hef lært ansi mikið, bæði um mín eigin forréttindi og eiginleika í íslenskri samfélagsgerð sem ég á örugglega eftir að skrifa eitthvað um síðar. Mikið af þessari vinnu hefur átt sér stað í norrænni samvinnu. Ég hef verið svo heppin að vera fulltrúi Mannréttindaskrifstofu Íslands í norrænu verkefni um hatur. Samstarfsaðilar okkar í verkefninum, danska mannréttindastofnunin og norska jafnréttisstofnunin hafa gert rannsóknir um umfang haturs í kommentakerfum fjölmiðla á facebook síðum þeirra og í báðum ríkjum virðist ekkert vekja meira hatur í kommentakerfum en samblanda af málefnum kvenna og fjölmenningar.

Norðmenn hafa lagt mikla áherslu á að vinna gegn uppgangi haturs í samfélaginu, meðal annars með aðgerðaráætlun sem stjórnvöld hafa kynnt. Ég hef skrifað um áætlunina áður og lagt til að ráðist verið í sambærilegt verkefni á Íslandi, en hún nær til lagabreytinga, forvarnastarfs og stefnumörkunar í ýmsum málaflokkum.

Í samstarfinu hefur komið sér vel að ég er búin að kynna mér íslenska lagaumgjörð haturs og hótana á netinu, en ég aðstoðaði við samanburðarrannsókn Moa Blandini, lektors við Gautaborgar háskóla um lagalega umgjörð haturs og hótana á Norðurlöndunum með því að kanna íslenska löggjöf og réttarframkvæmd.

Nú er komin út skýrsla Mannréttindaskrifstofu Íslands, dönsku mannréttindastofnunarinnar og norsku jafnréttisstofnunarinnar um hatur í lagalegum skilningi á Norðurlöndunum. Þar er að finna ítarlega samantekt um rannsóknir sem hafa verið gerðar um hatur, umfang þess og áhrif, í norrænum ríkjum. Þá eru þar greinar frá sérfræðingum á Norðurlöndunum sem hafa þekkingu á hatri í lagalegum skilningi. Ég skrifaði grein um ákvæðið ósamræmi sem ríkir um hatur gegn konum í íslenskum rétti. Þannig hafa fjölmiðlar lögbundna skyldu til þess að koma í veg fyrir ,,markvissa” hatursáróður sem grundvallast á kyni, en ákvæði hegningarlaga sem setur lögbundnar takmarkanir á tjáningu fjallar ekki um að kyn njóti verndar þó að kynvitund geri það. Greinin, eins og skýrslan öll, er á dönsku þó að ensk þýðing sé væntanleg. Ég fjallaði líka aðeins um þessi atriði í fyrirlestri sem ég flutti á ráðstefnunni ,,Af hverju hatarðu mig svona mikið?” sem var skipulögð og haldin af Æskulýðsvettvangnum í September 2017.

Í nóvember tók ég þátt í að skipuleggja tveggja daga ráðstefnu um stöðu kvenna á netinu þar sem rætt var um hvort að rétt væri að ramma kvenfyrirlitningu og kynferðislega mismunun innan haturslöggjafar. Í erindi sem ég flutti á ráðstefnunni fjallaði ég um dóma Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) og ábyrgð netmiðla á efni frá þriðja aðila, efni á borð við haturstal. Ég bar saman ummæli um konur í stjórnmálum á netinu og ummæli sem reyndi á í málunum sem fjallað var um í dómum mannréttindadómstólsins í samhengi við inntak haturstals í túlkun MDE.

Þegar siðanefnd breska þingsins gaf út skýrslu um aðkast og áreiti sem breskir þingmenn verða fyrir og lagði til að samfélagsmiðlum yrði gert að bera ábyrgð á að koma í veg fyrir að slíkt ætti sér stað á þeirra miðlum fór ég í viðtal hjá svæðisfréttum BBC og benti á að það skyti skökku við að stjórnvöld vörpuðu ábyrgðinni yfir á samfélagsmiðlana. Í framhaldinu skrifaði ég grein þar sem ég fjallaði um niðurstöður ráðstefnunnar í Sussex og að hugsanlega væri áreiti og aðkast á samfélagsmiðlum gegn  bresku stjórnmálafólk, þar af stjórnmálakonum í miklum meirihluta, birtingarmynd stærri vanda sem ekki yrði leiðréttur með lögbundinni ritstýringu samfélagsmiðla á tjáningu. Knúz.is þýddi greinina og endurbirti á íslensku.

Í næstu viku verður haldið Jafnréttisþing þar sem ég ætla að tala um stöðu kvenna í opinberri umræðu og hvort að sögurnar sem heyrðust undir #metoo kalli á lagaleg viðbrögð á Íslandi. 12 mars hafa velferðarráðuneytið, Alþingi, Kvenréttindafélag Íslands og UN Women svo boðað til fundar á kvennaréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í New York. Mér hefur verið boðið að halda framsögu á fundinum sem er haldinn undir yfirskriftinni: Digital Gender Equality and Hate Speech; the role of men, the legislator and implications for democracy. Þar verða fleiri erindi og umræður sem ég hlakka mikið til að taka þátt í.

Spennandi tímar.

 

Aldurstakmörk fyrir börn á samfélagsmiðlum

child-girl-young-caucasian-159848.jpegÞað hefur varla farið framhjá mörgum að framundan eru miklar breytingar á reglum um persónuvernd í Evrópu, þar á meðal á Íslandi. Ástæður endurskoðunarinnar eru ekki síst hin síauknu áhrif hins stafræna á alla þætti dagslegs lífs, viðskipta og samskipta í Evrópu og heiminum öllum. Markmið endurskoðunarinnar er meðal annars að styrkja réttindavernd einstaklinga og auðvelda viðskipti á innri markaðinum.  Nýlega stóðu Orator félag laganema við Háskóla Íslands og ELSA, félag evrópskra laganema fyrir áhugaverðum fundi um innleiðingu reglugerðarinnar í íslenskan rétt, en upptöku frá fundum má nálgast á þessari slóð.  Eins og kom fram á fundinum felur breytingin í sér að málum er skipað í reglugerð í stað tilskipunar áður. Það felur í sér minna svigrúm fyrir aðildarríki við innleiðingu gerðarinnar í innlendan rétt. Aldurstakmark barna á samfélagsmiðlum, eða þjónustu í upplýsingasamfélaginu eins og þeir eru kallað í gerðinni, er þó eitt þeirra atriða sem ríkin hafa nokkurt sjálfdæmi um. Í reglugerðinni er gert ráð fyrir 16 ára aldurstakmarki, en ríkjum gefin heimild til þess að miðað við yngri aldur, allt niður að 13 ára.

Nýlega kom út yfirlit frá rannsakendum við Gehnt háskóla þar sem safnað hefur verið upplýsingum um hvaða aldur aðildarríki ætla að miða við í sinni innleiðingu. Yfirlitið nær til 16 ríkja, þar af stefna 8 ríki að því að miða við 13 ára aldurstakmark, og 6 að 16 ára aldurstakmarki.

Á vegum íslenskra stjórnvalda er nú unnið að frumvarpi til þess að innleiða reglugerðina í íslenskan rétt, en frumvarpið hefur ekki verið birt til umsagnar og því ekki upplýst um hvaða aldurstakmark verði miðað. Hins vegar er ljóst að í íslensku samfélagi, þar sem netnotkun einstaklinga er með því allra mesta í heiminum, mun reglan hafa áhrif. Þannig eru fjölmörg börn á Íslandi sem nota samfélagsmiðla þrátt fyrir að uppfylla ekki aldurslágmark sem samfélagsmiðlarnir sjálfir setja. Þetta gera þau stundum með samþykki foreldra sinna og stundum ekki. Rannsóknir sýna að notkun samfélagsmiðla getur haft áhrif á hegðan og líðan barna og ungmenna. Í ljósi tæknibreytinga síðustu ára hafa foreldrar og forráðamenn barna einnig deilt upplýsingum og myndum af þeim með vinum og vandamönnum á samfélagsmiðlum, nokkuð sem á ensku hefur verið kallað sharenting – samsetning orðanna share, að deila, og partenting, að vera foreldri. Íslenskir foreldrar hafa ekki verið neinir eftirbátar í þessari menningu. Eins og Viktor Mayer-Schönberger fjallar um í bókinni “Delete. The virtue of forgetting in the digital age” eru atvik, reynsla og afstaða barna- og unglingsáranna nú í auknu mæli vistað í hinum stafræna heimi og óvíst hvaða áhrif þetta mun hafa á börn nútímans sem fullorðna framtíðarinnar.

Persónuverndarreglugerðin og innleiðing hennar í íslenskan rétt er því ágæt áminning um að börn eru hagsmunaaðilar í regluverki. Það er mikilvægt að gætt verði að hagsmunum þeirra við innleiðingu persónuverndarreglugerðarinnar.

 

Kynjafordómar, samfélagsmiðlar og lýðræði

Hér er íslensk þýðing af greininni minni sem birtist á Inforrm og DemocracyAudit UK. Hið öfluga teymi á bak við Knús.is sá um verkið og birti á vefsíðunni.

Knúz - femínískt vefrit

María Rún Bjarnadóttir skrifar:

Það er löngu viðurkennt að ganga megi lengra í umfjöllun um stjórnmálamenn en almenna borgara. Nýleg samantekt frá Independent Committee for Standard on Public Life sýnir að í aðdraganda síðustu þingkosninga á Bretlandi þurftu frambjóðendur að þola alvarlegri hótanir og ógnanir en svo að það geti talist til eðlilegrar „umfjöllunar“.

Þar kemur einnig fram að konur [1]  í stjórnmálum, líkt og þeldökkt fólk, fólk sem tilheyrir öðrum etnískum uppruna eða trúarlegum minnihlutahópum, og einnig kynsegin frambjóðendur, eru í töluverðri meiri hættu að verða fyrir hótunum en aðrir frambjóðendur.

Samantektin byggist á fjölda staðreynda, þar á meðal nýlegri rannsókn frá Amnesty International UK, sem sýnir að þeldökkar og asískar stjórnmálakonur verða fyrir mun meiri netáreiti en hvítir kollegar þeirra. Í nýlegri könnun á vegum BBC Radio 5, svöruðu 64% af 113 þingmönnum því játandi að konur í stjórnmálum yrðu fyrir meira áreiti en karlmenn í stjórnmálum.

View original post 812 more words