Topp 5 ráð fyrir karla sem eru á móti kynferðisofbeldi og vilja sýna það í verki

Nr. 1 Ekki beita kynferðisofbeldi

Virðist einfalt, en hefur greinilega ekki gengið nógu vel. Hérna eru leiðbeiningar frá landlækni og hérna eru leiðbeiningar með einföldum myndum. Ef þetta er ekki nóg væri hægt að henda í átak, til dæmis að fyrirmynd meistaramánaðar. Nauðungarlaus lífstíll væri flott markmið.  

Ég hef svosem skrifað um það áður, en þeir sem eru ekki á móti kynferðisofbeldi af hugsjónaástæðum ættu að minnsta kosti að vera það af hagkvæmnisástæðum, enda hleypur kostnaður af ofbeldi gegn konum á hundruðum milljóna samkvæmt erlendum úttektum.

Nr. 2 Ekki segja ekki allir karlar

Karlar eru í meirihluta þeirra sem beita ofbeldi, bæði aðra karla og konur. Þeir eru líka í miklum meirihluta þeirra sem beita kynferðislegu ofbeldi. Þetta þarf ekki að fjölyrða um. Það er verið að tala um kerfi, ekki einstaklinga. Karlar sem beita ekki kynferðisofbeldi þurfa ekki að taka þetta persónulega. Þeir geta frekar reynt að sýna samkennd og setja sig í spor kvenna til þess að skilja þennan veruleika. Gott lesefni er til dæmis The Right Amount of Panic, sem er hægt að lesa aðeins um á íslensku hér.

Nr. 3 Vera fyrirmynd

Karlar eru oft fyrirmyndir stráka. Þetta birtist með margskonar hætti. Þeir eru til dæmis í uppeldishlutverki gagnvart strákum, þjálfa þá í íþróttum, kenna þeim í skóla eða eru yfirmenn þeirra á vinnustað. Tækifærin til þess að móta gildi og viðhorf karla framtíðarinnar eru óþrjótandi og karlar geta notað þau til þess að breyta, jafnvel eyða, menningu sem viðheldur umhverfi sem kynferðisofbeldi þrífst í. Hérna eru nokkur ráð fyrir feður.

Nr. 4 Fara á námskeiðið Bandamenn hjá Stígamótum

Farðu með vinum, vinnufélögum, körlum í fjölskyldunni eða bara einn. Kannski niðurgreiðir stéttarfélagið jafnvel námskeiðisgjaldið.

Nr. 5 Halda karlakvöld

Þá er ég auðvitað ekki að meina karlakvöld eins og íslensk íþróttafélög hafa haldið í fjáröflunarskyni í áratugi þar sem kvennaliðið gengur um beina í stuttum pilsum og allir sem fram koma eru kallar því að það eru bara engir frambærilegir kvenkyns listamenn. Ekki heldur svona karlakvöld þar sem vinirnir eða vinnufélagarnir gera sér glaðan dag og það er ráðin strippari til að skemmta. Ég er að meina karlakvöld að fyrirmynd sænsku samtakanna Make Equal, sem kallast killmiddag á sænsku og gengur útá að karlar hittist og tali við vini sína, vinnufélaga eða karlana úr íþróttafélaginu til þess að tala um kynferðislegt ofbeldi. Það er hægt að nálgast leiðbeiningar á ensku hér.