Feitt hugrekki

Ég skrifaði þennan bakþanka fyrir Fréttablaðið á bóksafninu í New York þegar við vorum þar í fjölskylduferð fyrir þremur árum. Við heimsóttum líka kæra vini í Washington og Vífill flaug hringinn í kringum hnöttinn til að vera með okkur; hann kom úr ferðalagi til Víetnam í gegnum Kóreu til Bandaríkjanna og flaug svo til Íslands og þaðan heim til Englands. Þetta var frábært ferðalag.

Það tók mig enga stund að skrifa þetta, enda beint frá hjartanu og sársaukafullum stað. Ég hef ekki staðið mig eins vel og ég vildi í að vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín hvað líkamsímynd varðar, enda markeruð af fortíðinni sem hefur ennþá áhrif á mig.

Ég þorði ekki að láta birta bakþankann. Svitnaði í höndunum við að skrifa hann og þótti óhugsandi að viðurkenna fyrir alþjóð hvílík krumpa væri inní mér. Skrifaði þess vegna annan bakþanka í snarhasti og fór svo að hitta bestu mín í Central Park á leikvelli sem stóð svo ekki undir væntingum, en það var samt gaman.

Í dag var ég að fletta Twitter til þess að horfast ekki í augu við erfiðan kafla sem ég er að berjast við að skrifa og sá umræðu um fitufordóma. Kannski var þetta stundarbrjálæði, en mér fannst ég allt í einu svo hugrökk að ég ákvað að birta bakþankann, með innsláttarvillum og öllu. Geri það hérna líka. Feitt hugrökk týpa.

Fita. Bakþanki sem aldrei birtist.

Leave a comment