Það er alveg frábært að fylgjast með því hversu mikill kraftur er í vinnu stjórnvalda á sviði netöryggismála. Lagaumgjörð og stefnumótun hefur verið tekin föstum tökum á síðustu árum og verið styrkt verulega. Alþingi hefur samþykkt metnaðarfulla langtímastefnu í fjarskiptamálum til 2033 og framkvæmdaáætlun til 5 ára, en í áætluninni er tilgreint að sett verði lög um landslénið .is á tímabilinu. Það þykja mér spennandi fréttir. Svo ég rauk í Hlöðuna til þess að finna meistararitgerðina mína sem fjallar einmitt um lagasetningu um landslénið .is og komst að því að hún er ekki þar. Reyndar komst ég að því að ég átti bara eitt einasta eintak af ritgerðinni. Það er prófseintakið mitt; innbundið á pappír og útkrotað með leiðréttingum og athugasemdum. Það var mikið lærdómsferli að skrifa þessa ritgerð. Ég fékk aðgang að frumheimildum og tók viðtöl við lykilaðila sem ég geri þó ekki grein fyrir í ritgerðinni. (Lögfræðilega aðferðafræðin sko!) Einna eftirminnalegast var að skoða útboðsgögnin frá því þegar starfsemi Isnic var upphaflega seld til einkaaðila. Af þeim má ráða að það var ekki djúpstæður skilningur á starfseminni eða eðli hennar af hálfu söluaðila á sínum tíma – svona svo vægt sé til orða tekið…  Í ljósi fjarskiptaáætlunarinnar ákvað ég að skanna ritgerðina inn og gera hana aðgengilega á netinu. Bara beint á internetið með öllu krotinu og leiðréttingunum og handpáruðu samantektinni í efnisyfirlitinu. Mér sýnist á öllu að tími tæknilögfræðinnar sé loksins runninn upp á Íslandi svo kannski gæti þessa rúmlega áratuga gamla ritgerð vakið forvitni fleiri en nánustu fjölskyldumeðlima minna.

Ritgerðin nýttist síðan ansi vel við undirbúning frumvarps um landslénið sem ég samdi að meginstefnu til og var lagt fram með breytingum á 139., 140. og 141. löggjafarþingum. Ýmsir vankantar voru á fyrirkomulaginu sem var lagt til í frumvörpunum, en mér er ekki síður minnistætt hversu erfitt var að ná fram lausnarmiðaðri umræðu um þá þætti á  meðan frumvarpið var til meðferðar þingsins. Það náðist því ekki fram málamiðlun um það hvernig væri hægt að sníða þessa vankanta af. Sum gagnrýni var líka minna fagleg og meira persónuleg sem gagnaðist aðallega til þess að halda vöku fyrir mér, minna til þess að ýta málinu áfram. En ég hlakka mikið til að sjá nýja frumvarpið sem ég viss um að verður flott, í takt við aðra vinnu sem hefur verið að eiga sér stað á sviði netöryggismála. Mjög spennandi.

 

Leave a comment