Hatur a kommentakerfum

Rúmlega sextugur karlmaður í Þrændalögum var nýlega dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisvistar og sektargreiðslu fyrir haturstal, þegar hann skrifaði athugasemd við færslu á Facebook vegg norsku stjórnmálakonunnar Hadia Tajik sem má þýða sem: “Komið skíthælnum fyrir undir fallöxinni – ég toga gjarna sjálfur í spottann svo að öxin falli” og átti þar við Tajik. Hann var einnig dæmdur athugasemdina “drepstu í helvíti skítakelling” auk annarra. Dómstóllinn taldi ljóst að skrif mannsins ættu rætur í því að Tajik er múslimi og væri því haturstal í skilningi 185. gr. norsku hegningarlaganna. 

Ákvæðið orðast svo í íslenski þýðingu nefndar um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem vann frumvarp sem nýlega var kynnt til samráðs um þrengingu haturstals ákvæðis íslenskra hegningarlaga, nr. 233.a: 

“varðar það sektum eða fangelsi allt að þremur árum að setja, af ásetningi eða gáleysi, opinberlega fram hatursfulla tjáningu eða tjáningu sem hvetur til mismununar. Sá sem af ásetningi eða gáleysi setur fram slíka tjáningu í nærveru annars skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. […] með hatursfullri tjáningu eða tjáningu sem hvet[ur] til mismunar [er] átt við það að ógna einhverjum eða smána, eða að stuðla að hatri, ofsóknum eða fyrirlitningu einhvers á grundvelli litarháttar, þjóðernis, þjóðlegs uppruna, trúar, lífsskoðana, kynhneigðar eða fötlunar hans.”

Ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga, sem nefndin leggur til breytingar á orðast hins vegar svo:

“Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.”

Í frumvarpinu kemur fram sú afstaða nefndarinnar að breytingar sem gerðar voru á ákvæðinu árið 2014, meðal annars til þess að fullgilda viðbótarbókun við tölvubrotasamning Evrópuráðsins, hafi falið í sér þrengingu á tjáningarfrelsinu sem rétt sé að leiðrétta eins og gert er með breytingartillögunni. Nánar tiltekið á að breyta orðalagi ákvæðisins  þannig að ákveðnu alvarleikastigi tjáningar sé náð áður en hægt sé að virkja ákvæðið í framkvæmd. Í þessu augamiði leggur nefndin til að setningunni „enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun” sé skeytt aftan við ákvæðið. Þetta er eins og kom fram í kynningu frumvarpsins í haust til þess fallið  að lögreglan verði laus við “að rannsaka og ákæra fyrir eitthvað einstakt rant á kommentakerfum sem er ekki hluti af eiginlegum hatursáróðri”.

Á fundi á vegum Orator og ELSA Ísland um frumvarpið komu fram gagnstæð sjónarmið um ætlaða gagnsemi lagabreytingarinnar.  Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um frumvarpið er því velt upp hvort að breytingarnar gætu falið í sér verulegar takmarkanir á framkvæmd ákvæðisins, auk þess sem alla umfjöllun vanti um skaðsemi haturstals.

Það sem einna helst vekur athygli mína er að í fjölmörgum ríkjum Evrópu er til skoðunar hvernig bæta þurfi lagalega umgjörð haturs og hótana í garð kvenna sem taka sér pláss í opinberri umræðu. Þetta er takturinn í umræðunni í Bretlandi og málið sem varðar norsku stjórnmálakonuna er áminning um niðurstöður rannsókna og úttekta frá Danmörku, Svíðþjóð og Bretlandi sem sýna að konur í stjórnmálum verða fyrir áreiti sem á rætur í kyni þeirri; nokkuð sem karlar standa ekki frammi fyrir með sama hætti. Danska rannsóknin gefur til kynna að það sem vekji hörðust viðbrögð séu konur sem tjá sig um jafnréttismál, trúmál og innflytjendamál. Norska málið passar vel inní þá mynd.

Frumvarpið um hatursákvæðið ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir haustið. Það held ég að sé skynsamleg niðurstaða.

Leave a comment