Þungunarrof og refsingar

Hlustaði á Law in Action í gær, en í þættinum er fjallað um nýlegar lagabreytingar sem aflétti banni þungunarrofs á Norður-Írlandi. Lagasetningin sjálf hefur skapað nokkrar umræður sem ég ætla ekki að rekja hér, en ástæða hennar er niðurstaða Hæstaréttar Norður-Írlands um að löggjöf um bann við þungunarrofi á Norður-Írlandi hafi brotið í bága við réttindi konu sem þurfti vegna þeirra að fara til Englands til þess að framkvæmd þungunarrof. Dómurinn hefur þó ekki vald til þess að fjalla um gildi viðkomandi laga almennt, eða fella þau úr gildi, til þess þarf að koma lagasetning. Vegna sérstakra aðstæðna voru lögin sett í Englandi, en hafa tekið gildi á Norður-Írlandi.

Það var allskonar áhugavert til umfjöllunar í þættinum að vanda, en ég hjó sérstaklega eftir þessari umfjöllun um þungunarrofið vegna þess að ég er nýbúin að rýna íslensku hegningarlögin í tengslum við verkefni sem ég er að vinna að fyrir forsætisráðuneytið. Þá rak ég augun í 216. gr. hegningaralaganna:

 Kvenmaður, sem deyðir fóstur sitt, skal sæta … 1) fangelsi allt að 2 árum. Ef sérstaklega ríkar málsbætur eru fyrir hendi, má ákveða, að refsing falli niður. Mál skal ekki höfða, ef 2 ár eru liðin frá því að brot var framið. Ónothæf tilraun er refsilaus.
 Hver, sem með samþykki móður deyðir fóstur hennar eða ljær henni lið sitt til fóstureyðingar, skal sæta fangelsi allt að 4 árum. Sé um mikla sök að ræða, einkum ef verknaðurinn er framinn í ávinningsskyni eða hann hefur haft í för með sér dauða eða stórfellt heilsutjón móður, skal beita allt að 8 ára fangelsi. Hafi verkið verið framið án samþykkis móður, skal refsing vera fangelsi ekki skemur en 2 ár og allt að 12 árum.

Vegna þess að lagasafnið á netinu er ekki uppfært jafnóðum hélt ég að þarna væri á ferðinni draugur sem hefði verið afnuminn með nýlegri, og nokkuð umdeildri, lagasetningu um þungunarrof á síðasta þingi.  En þegar ég fletti upp frumvarpinu kom annað í ljós. Í ákvæði laganna um refsingar er vísað til ákvæða hegningarlaga og greinargerð með ákvæðinu sérstaklega til 2. mgr. 216. gr. sem fjallar um ábyrgð þeirra sem aðstoða konur við þungunarrof. Þannig verður konu sem rýfur þungun eftir 22. viku meðgöngu gerð refsing fyrir háttsemina, nema sérstakar aðstæður komi til. Ekkert er fjallað um þessa 1. mgr. 216. gr. hegningarlaganna í frumvarpinu. Ég fylgdist reyndar ekki mjög vel með meðferð málsins svo hugsanlega hefur ákvæðið komið til umfjöllunar við þinglega meðferð laganna, en það er ekki að finna í greinargerðinni. Ákvæðið ber rík merki þess að vera barn síns tíma. Ég skil ekkert í að það hafi ekki verið tekið til endurskoðunar í tengslum við setningu nýju laganna.

Leave a comment